Heyrnarlausum ítrekað mismunað

Heyrnarlausir fá ekki endurgjaldslausa táknmálstúlkaþjónusta á tímabilinu 25. maí til 30. júní vegna þess að fjármagn sem ætlað er til að standa undir þjónustunni er uppurið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi heyrnarlausra en þar segir að tilkynning þess efnis hafi borist frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Þetta sé í þriðja skiptið á rúmum tveimur árum sem þannig sé í raun lokað á þátttöku heyrnarlausra í íslensku samfélagi.

„Þetta þýðir að fólk sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta er útilokað frá því að taka þátt í t.d. húsfundum og í íþrótta- og tómstundastarfi barna sinna. Túlkaþjónusta vegna samskipta við t.d. vinnufélaga, bankastarfsmanninn, fasteignasalann, tryggingafélagið, lögmanninn. Búið er að loka á öll þessi samskipti eina ferðina enn,“ segir í fréttatilkynningunni. Minnt er á að lögum samkvæmt sé íslenskt táknmál jafnrétthátt og íslensk tunga og óheimilt að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar. Enn og aftur sé hins vegar þeim sem reiða sig á íslenskt táknmál mismunað.

„Félag heyrnarlausra hefur með bréfum, minnisblöðum og stjórnsýslukærum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem og í annarri umfjöllun, ítrekað vakið athygli á þeirri alvarlegri stöðu sem upp kemur þegar fjármagn til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu þrýtur. Hefur félagið einnig kvartað til umboðsmanns Alþingis sem er með málið í vinnslu. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið sent enn eitt bréf þar sem skorað er á hann sem ráðherra íslenska táknmálsins að sjá til þess að fjármagn til þessarar þjónustu verði tryggt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert