Í hvað fara milljónirnar 850?

Búningsaðstaða við Seljavallalaug hefur grotnað talsvert niður síðustu árin. Nú …
Búningsaðstaða við Seljavallalaug hefur grotnað talsvert niður síðustu árin. Nú á að setja 5 milljónir í viðhald og viðgerðir. mbl.is/Lára Halla.

Skaftafell og Þingvellir fá stærstu fjárframlögin í nýsamþykkri áætlun ríkisstjórnarinnar til uppbyggingar á ferðamannastöðum hér á landi, en 850 milljónir munu fara í verkefnið. Aðrir staðir sem fá háar upphæðir eru meðal annars Geysir, Gullfoss, Dimmuborgir og Dynjandi. Helstu verkefni sem tilgreind eru í áætluninni eru skipulag á svæðum, viðhald á göngustígum, uppbygging útsýnispalla og merkingar. Þá á að setja upp salernisaðstöðu á nokkrum stöðum og stækka bílastæði. Mbl.is skoðaði nánar í hvaða verkefni og á hvaða staði framlögin fara.

Löngu tímabært viðhald á Seljavallalaug

Meðal þeirra verkefna sem verja á fjármunum í í þetta skiptið er Seljavallalaug. Laugin hefur undanfarin ár mátt þola mikinn ágang, en verja á fimm milljónum í að steypa gólf í búningsklefum og allsherjar steypuviðgerðir.

Undanfarin ár hefur aðstaðan í klefunum tveimur verið með þeim hætti að fæstir notast við búningsklefana heldur skipta um föt utandyra. Slíkt eykur auðvitað upplifun viðkomandi og bætir tengingu hans við náttúruna, en á rigningardögum getur verið leiðinlegt að geyma fötin utandyra.

Önnur minni verkefni fela meðal annars í sér að verja á 10 milljónum til viðhalds og merkingar á göngustígum í Þórsmörk, 16,2 milljónir fara í byggingu hreinsivirkis og salernishúss við Hverfjall. Þá á að koma upp aðkomuskilti og útsýnispalli við Kattarauga og setja upp fimm fræðsluskilti við Mývatn og Laxá. Endurhlaða á fiskibyrgin við Gufuskála og setja setja upp aðkomuskilti á Fjallabaki og fara í umfangsmiklar útbætur á stígum kringum Laugaveginn.

Skaftafell stærsta verkefnið

Stærsta einstaka verkefnið er Skaftafell, en þangað er 160 milljónum varið. 40 milljónir fara í framkvæmd á bílastæði, 35 milljónir í viðbyggingu á Skaftafellsstofu, aðrar 35 milljónir í veitingaaðstöðu, 25 milljónir í þjónustuhús á tjaldstæði og sitthvorar 10 milljónirnar í nýja salernisaðstöðu á svæðinu. Þá verða 5 milljónir settar í útsýnispall við Hundafoss.

156,5 milljónir fara í uppbyggingu á Þingvöllum, en stærstu einstöku verkefnin þar eru gróðurvernd við Flosagjá, Nikulásargjá og Spöngina, gerð göngustíga á Gjábakkasvæði og Arnarfelli, stýring fyrir bílastæði á svæðinu og stækkun bílastæðisins við Hakið.Þá fara 25 milljónir í nýjan útsýnispall við Langastíg.

50 milljónir í Geysissvæðið

Á Gullfosssvæðinu verður 15 milljónum varið í nýja göngustíga og útsýnispall á efra svæðinu. Öðrum 19 milljónum er varið í önnur minni verkefni á svæðinu. Við Geysi eru 50 milljónir eyrnamerktar heildaruppbyggingu á svæðinu og við Dyrhólaey fara 15 milljónir í bílastæði og 16 milljónir í salernishús.

Einnig verður sett 21 milljón til að efla starf landvarða um allt land.

Frétt mbl.is: 850 milljónir í brýn verkefni

Úthlutað verður 850 milljónum til verkefna á 52 stöðum víðsvegar …
Úthlutað verður 850 milljónum til verkefna á 52 stöðum víðsvegar um land. Stærstu verkefnin eru á Þingvöllum og í Skaftafelli.
50 milljónir fara í heildaruppbyggingu við Geysi í Haukadal.
50 milljónir fara í heildaruppbyggingu við Geysi í Haukadal. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert