Leggja sig fram við að bæta þjónustuna

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega …
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega að láta hana virka rétt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Margar tillögur framkvæmdarráðs ferðaþjónustu fatlaðs fólk hafa verið framkvæmdar og aðrar eru í vinnslu. Það er mat ráðsins, sem var skipað þann 6. mars s.l., að margt hafi áunnist í úrbótum á ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdarráðinu.

Framkvæmdarráðið var skipað til að hrinda í framkvæmd margvíslegum tillögum um úrbætur á ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdaráðið er skipað tveimur fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðra, tveimur fulltrúum sveitarfélaga og Þorkeli Sigurlaugssyni sem veitir ráðinu forystu.

„Það er mat framkvæmdaráðsins að stjórnendur og starfsmenn Strætó bs. hafa lagt sig fram undanfarna mánuði að bæta reksturinn og þjónustuna. Margar tillögur framkvæmdaráðsins hafa verið framkvæmdar og aðrar eru í vinnslu,“ segir í tilkynningunni. 

Í skýrslu innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um yf­ir­töku Strætó á ferðaþjónustu fatlaðra, sem kynnt var fyrr í mánuðinum, kom fram að ákveðið skiln­ings­leysi hafi verið á þörf­um og sér­stöðu not­enda ferðaþjón­ustu fatlaðra hjá þeim inn­an Strætó sem áttu að koma að breyt­ing­um á þjón­ust­unni um sein­ustu ára­mót.

Framkvæmdarráð ferðaþjónustunnar benda á að skýrslan fjallar fyrst og fremst um fortíðina og aðdraganda breytinga sem gerðar voru. „Verkefni innri endurskoðunar var að fara yfir aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd breytinga ferðaþjónustunnar fram að áramótunum 2014-15. Samkvæmt skýrslu innri endurskoðunar var ýmislegt vel gert í þeim undirbúningi, en því miður misfórst margt einnig í undirbúningi og framkvæmd,“ segir í fréttatilkynningu. 

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að það séu sameiginlegir hagsmunir allra aðila sem koma að verkefninu að ná tökum á ferðaþjónustunni innan Strætó og koma henni í það horf til framtíðar að allir geti verið sáttir við framkvæmdina. Framkvæmdaráðið vinnur náið með framkvæmdastjóra Strætó bs. og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að úrbótum og er verið að ganga frá ráðningu sérstaks sviðsstjóra fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks innan Strætó bs.

„Einnig er unnið að því að endurskoða starfsreglur þjónustuhóps ferðaþjónustunnar með það að markmiði að efla starf hópsins þar sem starfsfólk Strætó bs., bílstjórar og hagsmunasamtök notenda gegna lykilhlutverki. Hlutverk þjónustuhópsins er að leggja mat á gæði þjónustunnar, taka við athugasemdum og vinna að úrbótum á hverjum tíma,“ segir í tilkynningu. 

„Margt á eftir að lagfæra í ferðaþjónustunni. Framkvæmdaráðið hvetur alla aðila þar með talið notendur og hagsmunasamtök að vinna saman að því að gera þjónustuna betri innan Strætó og vill lýsa yfir stuðningi við starfsfólk Strætó bs., bílstjóra og aðra sem leggja sig fram um að tryggja góða þjónustu við fatlað fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert