Tveir menn réðust á strætóbílstjóra

Ráðist var á vagnstjóra Strætó við Ártún um hádegi í …
Ráðist var á vagnstjóra Strætó við Ártún um hádegi í dag. Tveir menn voru að verki. mbl.is/Sigurður Bogi

Tveir menn réðust á bílstjóra Strætó í Ártúni um hádegisbil í dag. Lögreglan kom stuttu seinna á vettvang og fór bílstjórinn á slysadeild. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Strætó, Jóhannesi Svavari Rúnarssyni, hlaut bílstjórinn ekki alvarlega áverka og stefnir á að mæta til vinnu aftur á morgun.  Árásin átti sér þann formála að mennirnir tveir reyndu að svindla sér inn í strætóinn. Jóhannes segir að því miður hafi árásum á bílstjóra fjölgað upp á síðkastið, en hann vonar að þetta kalli ekki á róttækar breytingar.

Reyndu að svindla sér inn

Jóhannes segir í samtali við mbl.is að um hádegið hafi einn farþegi með rifinn miða reynt að svindla sér inn í vagninn. Bílstjórinn hafi ekki tekið miðann gildan og gefið farþeganum tækifæri á að greiða fargjaldið. Á eftir honum hafi svo komið annar maður og hafi sá verið með hinn hluta miðans og einnig ætlað að svindla sér inn. Þeir hafi ekki sætt sig við að vagnstjórinn meinaði þeim aðgang. „Þá verður allt vitlaust og þá er ráðist á hann,“ segir Jóhannes.

Líðan bílstjórans er ágæt að sögn Jóhannesar, en lögreglan kom fljótlega á vettvang. Ekki liggur fyrir hvort mennirnir tveir hafi verið handteknir.

Ekki algengt, en fjölgað upp á síðkastið

Jóhannes segir atvik sem þessi ekki algeng, en að upp á síðkastið hafi komið upp þrjú svona tilfelli. Segir hann þetta vera mikið áhyggjuefni, en að hann vonist til þess að ekki þurfi að fara í breytingar og að vagnstjórarnir séu í lokuðum búrum. Segist hann telja að við búum ekki í landi þar sem slíkt sé nauðsynlegt og tekur fram að það sé varla þekkt í hinum vestræna heimi. Í dag eru bílstjórar með neyðarhnapp í bílnum sem þeir geta notað til að kalla á aðstoð.

Segir Jóhannes að bílstjórarnir séu auðvitað í framlínunni og þurfi að sitja undir ýmsu. Þeir hafi það hlutverk að stöðva þegar fólk vilji ekki borga. „En það er hörmulegt að menn séu að ráðast á saklausa bílstjóra,“ segir Jóhannes um að menn séu að framfylgja starfi sínu. Segist hann spyrja sig hver ástæðan sé fyrir þessu. Hvort það sé minni virðing gagnvart strætóbílstjórum eða hvort hún sé einhver önnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert