1,8 milljarðar í úrbætur á vegakerfinu

Með auknum fjölda ferðamanna hefur álag á vegakerfið aukist mikið.
Með auknum fjölda ferðamanna hefur álag á vegakerfið aukist mikið. mbl.is/Styrmir Kári

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að verja 1,8 milljörðum króna til brýnna framkvæmda á vegakerfi landsins til viðbótar við þær framkvæmdir sem áður voru fyrirhugaðar.

Tilgangurinn með framkvæmdunum er að bæta umferðaröryggi, bregðast við slæmu ástandi vega og koma til móts við þarfir landsmanna og ferðamanna vegna stóraukinnar umferðar, að því er fram kemur í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. 

„Á undanförnum árum hefur viðhald á vegum verið takmarkað, vegna aðhalds og niðurskurðar í fjárveitingum til vegamála. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er því mikil. Erfitt tíðarfar undanfarna vetur hefur aukið á þörfina og margir fjölfarnir vegir hafa komið illa undan vetri. Tjóna- og slysahætta vegna þessa er mikil og því er nauðsynlegt að ráðast nú þegar í framkvæmdir til að auka umferðaröryggi. Ríkisstjórnin hefur í ljósi þess ákveðið að fé til viðhaldsverkefna verði aukið um 500 milljónir á árinu. Fénu skal varið til viðhalds á umferðamestu götum á höfuðborgarsvæðinu og Hringveginum samkvæmt ástandsmati Vegagerðarinnar sem mun hafa umsjón með verkefninu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Þá kemur fram, að fjárfestingar í innviðum samfélagsins séu almennt mjög arðsamar enda þjóni þær almenningi og styrkja bæði atvinnulíf og búsetu. Góðar og öruggar samgöngur séu þannig grunnforsenda fyrir vexti og framgangi ferðaþjónustunnar. Sú atvinnugrein hafi verið ein af undirstöðum hagvaxtar undanfarin ár en með auknum fjölda ferðamanna hafi álag á vegakerfið aukist mikið. Taka þrufi mið að þeirri staðreynd við þróun vegakerfisins og fjárfestingu í öðrum innviðum bæði til að auka öryggi og dreifa betur álagi á vegum landsins. 

„Liður í því eru framkvæmdir við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg, sem gerðar eru mögulegar með því viðbótarframlagi til vegamála sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun. Verkefnin eru mikilvægar vegabætur sem lengi hefur staðið til að hrinda í framkvæmd en ítrekað verið frestað. Verkefnin eru öll tilbúin til útboðs með litlum fyrirvara. Alls verður 1,3 milljörðum króna varið til þessara fjögurra verkefna sem Vegagerðin mun hafa umsjón með,“ segir í tilkynningunni. 

Fjármögnun ofangreindra verkefna er háð samþykki Alþingis, en óskað verður eftir fjárheimildum í tillögum til fjáraukalaga 2015. Fjárlaganefnd Alþingis hefur verið kynnt málið í samræmi við 33. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert