Algjör snilld að vera skiptinemi

Ólöf er dúxinn á Húsavík.
Ólöf er dúxinn á Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Ég veit ekki hver galdurinn á bak við það að dúxa er, bara að læra vel allan veturinn og fylgjast vel með,“ sagði Ólöf Traustadóttir, sem útskrifaðist úr Framhaldsskólanum á Húsavík um helgina. Ólöf, sem er dóttir hjónanna Trausta Aðalsteinssonar og Unnar Guðjónsdóttur, hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi, 9,07, og viðurkenningar fyrir íslensku, ensku, félags- og raungreinar.

Aðspurð hvert sterkasta fagið hennar sé kemur örlítið hik á Ólöfu. „Sterkasta fagið mitt? Ég er ekki alveg viss. Jú, ætli það sé ekki líffræði eða jarðfræði.“

Hún dvaldi í Frakklandi eitt ár, var þar skiptinemi á vegum AFS skiptinemasamtakanna. „Það var geðveikt að vera úti, ógeðslega gaman. Ég var í pínulitlum bæ í miðju Frakklandi og það var algjör snilld.“ Það má segja að skiptinámið sé fjölskylduhefð. „Já, allar systur mínar fóru út sem skiptinemar og mamma líka.“ Ólöf sagðist aðspurð vel geta hugsað sér að flytja aftur til Frakklands í framtíðinni. „Algjörlega. Mér fannst mjög gaman að búa þar. Ég tala frönsku líka hér um bil reiprennandi.“

Hvað ætlar dúxinn við bæinn við Skjálfanda að gera í sumar og haust? „Ég ætla að vinna á elliheimilinu í bænum í sumar og vinna eitthvað meira í haust og fara síðan til útlanda að ferðast. Þannig að ég ætla að taka mér ársfrí áður en ég læri eitthvað meira. Eftir það ætla ég að reyna við inntökuprófið í læknisfræði, á næsta ári.“

Hvernig skyldi Ólöfu lítast á að yfirgefa heimabæinn og flytja suður? „Það verður örugglega pínulítið erfitt en systur mínar búa fyrir sunnan svo ég á líka fólk þar þannig að það verður örugglega allt í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert