Deilur ekki eðlilegt ástand

Helgi Hrafn Gunnarsson þingflokksformaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Rósa Braga

Þegar við lítum fram á veginn eigum við ekki að kenna hvert öðru um og þegar þjóðin vill fá að ráða einhverju eigum við ekki að láta eins og það sé sjálfkrafa ósigur stjórnmálamanna sem hafa aðrar skoðanir heldur eigum við að bera virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti alls fólks, hvort sem í hlut eiga einstaklingar eða hópar.

Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, á Alþingi í morgun í umræðum um störf þingsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur væru hvorki dýrar né flóknar. „Það er auðvelt að koma hér á sterkara og betra og siðmenntaðra lýðræði sem gerir almenningi kleift að ákveða fyrir eigin hönd hvernig forgangsröðun hins háa Alþingis á að vera. Í það minnsta í meginatriðum.“

Helgi Hrafn lagði ennfremur áherslu á að deilur, eins og staðið hafi yfir á Alþingi að undanförnu um rammaáætlun, ættu ekki að eiga sér stað. „Við eigum aldrei að líta á þessar deilur sem eðlilegan hlut af því hvernig Alþingi starfar. Ég held að enginn geri það, sem betur fer. Alla vega ekki til lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert