Losnar úr einangrun á föstudag

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg.
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Á föstudagsmorgun verður síðasti kvenfanginn úr Kvennafangelsinu í Kópavogi fluttur til Akureyrar. Kvenfanginn hefur verið í Hegningarhúsinu vegna plássleysis frá því á föstudaginn í síðustu viku og hafði móðir hennar, Rósa Jónsdóttir, hótað að hlekkja sig við húsið þar til dóttir hennar fengi viðunandi húsakost.

Stundin greindi frá málinu í gær en þar kom fram að dóttir Rósu væri alein á gangi og lokuð inni í litlum klefa. Rósa hætti við gjörninginn þegar hún fékk fréttina af flutningnum staðfesta í dag.

„Þetta er rosalega mikill léttir. Hún mun geta hitt annað fólk og hitt hina fangana en [í Hegningarhúsinu] er hún bara lokuð ein inni í 24 tíma á sólarhring,“ segir Rósa. „Hún er afskaplega fegin að þetta verði ekki lengra.“

Þurfti lyf til að lifa af vistina

Í fangelsinu á Akureyri mun konan, sem er 26 ára, ekki þurfa að búa við einangrun en þar eru jafnframt tvær aðrar konur vistaðar sem hún hafði afplánað með í kvennafangelsinu. Konan hóf afplánun sína í janúar og hafði náð miklum árangri í fangelsinu að sögn móður hennar en konan glímir við eiturlyfjafíkn og var dæmd í eins árs fangelsi í kjölfar ýmissa smáglæpa tengdum fíkniefnaneyslu.

„Henni er búið að ganga rosalega vel, hún var í skóla í vetur og rúllaði því upp eins og öllu sem hún gerir auk þess sem hún var í vinnu. Nú er hún komin á róandi lyf og svefnlyf,“ segir Rósa og undirstrikar að dóttur hennar hafi verið gefin lyfin þrátt fyrir að vera fíkill. „Ég finn að hún er dofin vegna lyfjana en læknirinn sem hitti hana skrifaði upp á þessi lyf svo hún myndi einfaldlega þrauka vistina. Þetta er náttúrulega til skammar.“

Inngrip á borð við einangrun og lyfjagjöf getur haft alvarlegar afleiðingar í bataferil fíkils en Rósa segist vonast til þess að vistin í Hegningarhúsinu hafi ekki áhrif á dóttur sína til lengri tíma litið. „Maður verður bara að vona það og halda áfram að reyna að stappa í hana stálinu. Hún hefur aldrei farið í meðferð og hefur því forgang inn á Vog. Þegar hún veit hvenær hún losnar getur hún byrjað að búa sig undir að fara í meðferð og það ætlar hún sér að gera þrátt fyrir þetta.“

Getur komið fyrir í öllum fjölskyldum

Rósa segir brotaferil dóttur sinnar vera stuttan og að hún hafi náð botninum sem fíkill á mjög skömmum tíma. „Þetta er ekki löng saga. Afbrotin sem hún er að sitja af sér voru framin síðasta haust og fram í janúar. Sum brotin eru fáránleg, hún var t.d. nöppuð við að stela andarbringum úr Krónunni, maður hlær pínu við að lesa dóminn.“

Rósa segist þó ekki gera neina tilraun til að draga úr sekt dóttur sinnar enda sé búðarrán glæpur sama hvernig sem á það er litið ,rétt eins og önnur brot sem dóttir hennar framdi. „Þetta eru afbrot sem eru eingöngu tengd fíkniefnaneyslu hennar. Hún fór í sprauturnar og á botninn á núll einni. Það var ótrúlegur hraði á þessu sem maður áttaði sig ekki á. Við hentum henni út síðasta haust og svo lá leiðin bara niður á við,“ segir Rósa.

„Mér er slétt sama hvað fólk heldur um mig en þetta getur komið fyrir í öllum fjölskyldum. Ég óska engum að horfa upp á barnið sitt í fíkn, þó það sé orðið 25 ára.“

Eins og froðufellandi naut

Lögfræðingur konunnar hefur aðstoðað þær mæðgur við að þrýsta á fangelsismálayfirvöld en Rósa segir hugmyndina að því að hlekkja sig við hegningarhúsið hafa komið til þar sem hún hafi verið hunsuð af fangelsismálastofnun. „Þau vildu ekki ekkert í mér heyra, ég var eins og froðufellandi naut þegar ég var að tala við þá síðastliðinn föstudag. Ég held ég sé ekki vinsæl á þeirri stofnun í dag. Ég var ekki að biðja um einhverja sérmeðferð fyrir hana, bara viðunandi úrræði.“

Rósa svarar því játandi og af mikilli festu þegar blaðamaður spyr hvort hún hefði haldið hótunum sínum um að hlekkja sig við Hegningarhúsið til streitu. „Já, ég hefði gert það. Ég er með keðju og lása,“ segir hún og hlær. „En þessu verður ekki haggað, hún fer norður á föstudagsmorgun.“

Rósa Jónsdóttir, móðir fangans.
Rósa Jónsdóttir, móðir fangans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert