Horfa þurfi til lífeyrisþega

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ástæða til að fagna því ef úr er að leysast kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, en það dregur um leið athyglina að því algera árangursleysi sem er í viðræðum á hinum opinbera markaði. Það er ástæða til að nota þetta tækifæri til að hvetja ríkisstjórnina til að taka til óspilltra málanna við að fylgja fordæmi aðila vinnumarkaðarins og leysa úr þeim deilum sem nú standa.“

Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun í umræðum um störf þingsins. Fleiri þingmenn, bæði í röðum stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, fögnuðu því að sama skapi að svo virtist sem aðilar almenna vinnumarkaðarins væru að ná saman um kjarasamninga. Helgi sagði sérstakt fagnaðarefni að verið væri að vinna sig í áttina að kröfunni um 300 þúsund króna lágmarkslaun og sérstakar kjarabætur fyrir hina lægst launuðu. En fleira þyrfti að færa til betri vegar. Óhjákvæmilegt væri í framhaldinu að horfa til lífeyrisþega í landinu.

„Þegar fólk á almennum vinnumarkaði hefur nú sýnt þann stórhug að hækka sérstaklega hæstu launin í þeim samningum sem nú hafa náðst er það áskorun fyrir okkur að gera slíkt hið sama fyrir þá sem eru á ellilífeyri, örorkulífeyri og hjá almannatryggingum og eiga framfærslu sína alfarið undir þessari stofnun hér, Alþingi. Alþingi má ekki vera eftirbátur almenna vinnumarkaðarins þegar kemur að kjaramálum hinna verst settu í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert