Kópavogur ljósleiðaravæddur fyrir 2018

Theodóra Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í …
Theodóra Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi og Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Ljósmynd/Gagnaveita Reykjavíkur

Kópavogsbær og Gagnaveita Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukinn uppbyggingarhraða Ljósleiðarans í bæjarfélaginu.

Allir nýir viðskiptavinir Gagnaveitu Reykjavíkur í Kópavogi munu fá búnað sem ræður við 1 Gb/s gagnahraða. Í fréttatilkynningu segir að með þessu sé Gagnaveitan að koma Kópavogsbæ í fremstu röð bæjarfélaga í fjarskiptum, en 64% heimila munu í lok árs hafa aðgengi að hraðasta interneti á Íslandi.

Ljósleiðaravæðingu bæjarins lýkur síðan fyrir lok ársins 2017 en þá munu öll heimili í bænum hafa aðgengi að Ljósleiðaranum.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segist vera ánægður með að Gagnaveitan hafi komið til móts við óskir Kópavogsbúa um að hraða uppbyggingu ljósleiðara til þess að svara þörfinni á hraðari gagnaflutningum.

„Ljósleiðarinn er lykill að skjótum og greiðum viðskiptum og samskiptum í atvinnulífi, ásamt því að vera tækni sem eykur lífsgæði almennings. Hraðari gagnaflutningar hjálpa okkur einnig við að ná markmiðum í spjaldtölvuvæðingu skóla bæjarins,“ segir hann.

Í árslok 2015 munu sjötíu þúsund heimili á Ísland verða tengd Ljósleiðaranum.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, segir ljósleiðarann nauðsynlegan fyrir þá byltingu sem framundan er í snjallvæðingu heimila.

„Með ljósleiðara Gagnaveitunnar ná viðskiptavinir hröðustu tengingu á Íslandi. Þjónusta sjónvarpsveitna og miðlun myndefnis af öllu tagi kallar á öflugra og hraðara netsamband. Gagnaveita Reykjavíkur er vel í stakk búin til að svara þessu kalli og horfir enn lengra fram á veginn í þessari tæknivæðingu. Þannig fylgjum við eftir þeirri þróun sem á sér stað hjá framsæknustu gagnaveitum heims,“ segir hann.

Ljósmynd/Gagnaveita Reykjavíkur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert