Ósáttur við launauppgjör

Lögreglustöðin í Vestmannaeyjum
Lögreglustöðin í Vestmannaeyjum mbl.is/GSH

Lögreglunni í Vestmannaeyjum var tilkynnt um skemmdir sem unnar voru í húsnæði sem verið var að endurnýja í síðustu viku. Þarna hafði fyrrverandi starfsmaður valdið tjóni á pípulögnum, skemmt veggi og ýmislegt fleira. Ljóst er að tjónið er umtalsvert, en talið er að ástæða skemmdanna tengist uppgjöri á vinnulaunum, segir í dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Ætluðu að selja amfetamín í Eyjum

Eitt fíkniefnamál kom upp í Vestmannaeyjum um helgina en þrjár ungar stúlkur játuðu að hafa ætlað að selja amfetamín í Vestmannaeyjum. Stúlkurnar voru handteknar þegar þær voru að ná í pakka sem sendur var til Vestmanneyja með Herjólfi. Málið telst að mestu upplýst.

Einn ökumaður var stöðvaður í liðinni viku vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

„Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Fyrra óhappið átti sér stað á Hamarsvegi vestan við Dverghamar en þarna hafði maður á bifhjóli misst stjórn á akstrinum með þeim afleiðingum að hjólið lenti á hliðinni og rann það og ökumaðurinn um 60 metra eftir veginum. Ökumaðurinn kvartaði yfir eymslum í öxl og ökkla og var fluttur á Sjúkrahúsið og í framhaldi af því með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari rannsóknar. 

Seinna óhappið átti sér stað á Sólhlíð þar sem bifreið var ekið afturábak á kyrrstæða bifreið.  Ekki var um mikið tjón að ræða í því óhappi,“ segir í dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert