Ráðherra tryggi tafarlaust meira fé

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Peningar sem þarf í þennan sjóð eru hlægilegir smámunir miðað við þá miklu hagsmuni og réttindi þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og miðað við hversu mikilvæg mannréttindi eru í húfi sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks áréttar í hverju orði,“ sagði Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann ræddi um fréttir þess efnis að heyrnarlausum verði ekki boðið upp á gjaldfrjálsa túlkaþjónustu næsta mánuðinn þar sem fjármagns til málaflokksins sé uppurið.

„Það má vísa til þess að þetta sé algjört brot á því grundvallarsjónarmiði sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks byggist á og hefur að meginmarkmiði að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar og að tryggja þeim aðgang án mismununar að hinni og þessari þjónustu sem heyrnarskert fólk á rétt á en fer á mis við ef það nýtur ekki þessarar túlkunar. Íslenska ríkið verður að sýna að það meini eitthvað með því þegar það segir að það ætli að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggja fötluðu fólki þann lágmarksrétt sem hann mælir fyrir um,“ sagði þingmaðurinn.

Skoraði hann ennfremur á Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra að tryggja tafarlaust nægt fjármagn til málaflokksins. „Við getum ekki boðið þessu fólki upp á að hafa ekki túlkaþjónustu í heilan mánuð, það er algjörlega óforsvaranlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert