Reimar nýr formaður Lögmannafélagsins

Reimar Pétursson, nýr formaður Lögmannafélagsins.
Reimar Pétursson, nýr formaður Lögmannafélagsins. mbl.is/Styrmir Kári

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður var kjörinn formaður Lögmannafélags Íslands á aðalfundi félagsins í gær. Hann tekur við starfinu af Jónasi Þóri Guðmundssyni, sem gegnt hefur formennsku síðastliðin þrjú ár.

Samkvæmt reglum félagsins má formaður eingöngu sitja í þrjú ár samfellt.

Formennska í Lögmannafélaginu er ólaunað starf og sinnir hlutaðeigandi lögmaður því embættinu samhliða almennum lögmannsstörfum sínum.

Reimar er einn eigenda Lögmanna Lækjargötu. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi sama ár. Hann hlaut LL.M. gráðu frá Columbia-háskólanum í New York árið 2003, en ári síðar hlaut hann bæði réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti og í New York ríki. 

Lög­manna­fé­lag Íslands var stofnað árið 1911. Fé­lagið kem­ur fram fyr­ir hönd lög­manna gagn­vart dóm­stól­um og stjórn­völd­um um þau mál­efni sem stétt þeirra varða, set­ur siðaregl­ur fyr­ir lög­menn og fer með til­tekið eft­ir­lit með störf­um þeirra.

Skylduaðild er að fé­lag­inu fyr­ir þá lög­fræðinga sem hafa lög­manns­rétt­indi, þ.e. rétt­indi sem héraðsdóms­lög­menn og hæsta­rétt­ar­lög­menn. Fé­lags­menn eru nú um 1.060 tals­ins.

Frétt mbl.is: Hættir sem formaður Lögmannafélagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert