Sýknaður af ákæru um nauðgun

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann sem var ákærður fyrir nauðgun og líkamsárás með því að hafa haft samræði við konu gegn vilja hennar og kýlt hana. Héraðsdómur segir að sönnunargögn renni ekki stoðum undir það að maðurinn hafi framið það brot sem hann er sakaður um í málinu.

Þá segir að framburður mannsina hafi verið staðfastur ólíkt framburði konunnar.

Ríkissaksóknari ákærði manninn fyrir nauðgun í janúar á þessu ári, en fram kom að atvikið hefði átt sér stað í nóvember 2013. Þar segir að hann hefði haft samræði við konuna gegn vilja hennar, og notfært sér það að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum svefndrunga og ölvunar. Einnig var hann ákærður fyrir að hafa kýlt konuna í hnakkann í kjölfar þess að hún vaknaði, en hún hlaut áverka á vinstri kjálka og á hnakka.

Maðurinn neitaði sök við þingfestingu málsins. Þá neitaði hann að hafa haft samræði við konuna. Hann viðurkenndi hins vegar að það hefði komið til átaka á milli þeirra þegar konan reyndi að koma honum út úr íbúðinni sinni. Maðurinn sagði að konan hefði brugðist illa við þegar hann vakti hana til að láta hana vita að hann væri að fara, en hann var þá að bíða eftir að vera sóttur. 

Ákæruvaldið byggði kröfu um sakfellingu á framburði konunnar um að maðurinn hafi haft við hana samfarir og um átök á milli þeirra. Það var mat ákæruvaldsins að framburður konunnar væri staðfastur og trúverðugur og fékk að auki stoð í framburðum annarra vitna og í rannsóknargögnum málsins. Réttarlæknisfræðileg skoðun sýndi að konan hefði verið með líkamlega áverka. Það að konan myndi ekki atburði í smáatriðum taldi ákæruvaldið vera vegna ölvunar hennar. Hún hefði verið mjög ölvuð og því hefði maðurinn getað nýtt sér ölvunarástand hennar.

Framburður mannsins trúverðugur

Maðurinn byggði sýknukröfu sína á því að sönnun sektar hefði ekki tekist. Leggja yrði framburð hans til grundvallar niðurstöðu málsins en hann hefði verið staðfastur og hefði frá fyrstu skýrslu skýrt frá atvikum á sama veg. Konan hefði á hinn bóginn verið óstaðföst í frásögn sinni og ekki getað greint frá mikilvægum atvikum. Átti það við um klæðnað hans og hvernig hann yfirgaf íbúð konunnar.

Héraðsdómur segir að skýrsla mannsins fyrir dómi hafi í öllum aðalatriðum verið á sama veg. Að mati dómsins hafi framburður hans verið staðfastur og hafi hann borið á sama veg hjá lögreglu og fyrir dómi í öllum meginatriðum. Þykir framburður mannsins fyrir dómi ekki ótrúverðugur og eigi það einnig við um þá skýringu sem hann gaf á tilurð þeirra áverka sem fundust á konunni við réttarlæknisfræðilega skoðun.

Dómurinn segir að sönnunargögn renni ekki stoðum undir það að maðurinn hafi framið það brot sem hann sé sakaður um í málinu. Þá geti misvísandi frásagnir vitna af því sem konan tjáði þeim um ætlaða atlögu mannsins að henni ekki einar og sér leitt til þess að hann verði sakfelldur.

„Það er því mat dómsins að framburður brotaþola hafi ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að nægi, gegn eindreginni og staðfastri neitun ákærða, til þess að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir, sbr. áðurgreind ákvæði 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og er ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Á það einnig við um þá háttsemi að hafa kýlt brotaþola í hnakka með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru,“ segir í niðurstöðu dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert