Tengdist Íslandi sterkum böndum

Mary Ellen Mark ljósmyndaði fatlaða krakka í Safamýrarskóla og á …
Mary Ellen Mark ljósmyndaði fatlaða krakka í Safamýrarskóla og á Lyngási í heilan mánuð árið 2006. Rax / Ragnar Axelsson

Ljósmyndarinn heimskunni Mary Ellen Mark sem lést á mánudag tengdist Íslandi sterkum böndum. Hingað kom hún margoft, kenndi ljósmyndun og myndaði meðal annars einstök börn. Hennar er minnst sem eins merkasta heimildarljósmyndara heims sem hafði einstakt lag á að vinna traust viðfangsefna sinna.

Mark öðlaðist heimsfrægð fyrir myndir sínar en þær birtust meðal annars í tímaritum og dagblöðum eins og Life, New York Times Magazine, Rolling Stone og Vanity Fair. Hún fæddist þann 20 mars 1940 í Fíladelfíu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum og stundaði nám við Háskólann í Pennsylvaníu. Þaðan lauk hún prófi í myndlist, listasögu og blaðaljósmyndun.

„Ég man eftir fyrsta skiptinu sem ég fór út á götu að taka myndir. Ég var í miðborg Fíladelfíu og fór bara í göngutúr, gaf mig á tal við fólk og byrjaði að mynda það og ég hugsaði: „Ég elska þetta. Þetta vil ég gera að eilífu“. Það var aldrei nein spurning um annað,“ sagði Mark í viðtali árið 1997 að því er segir í andlátsfrétt sem birtist í The New York Times.

Við þetta stóð hún. Sérstaklega gat Mark sér gott orð fyrir að fanga það sem talin voru erfið viðfangsefni. Þannig dvaldi hún á meðal vændiskvenna í Bombay á Indlandi og myndaði heimilislausa táninga í Seattle í Bandaríkjunum og vistmenn á geðdeild í Oregon-ríki. Þótti hún einstaklega góð í að vinna traust fólks sem hún myndaði og hélt hún jafnvel sambandi við það í fjölda ára.

Sú var einnig raunin hér á landi þar sem hún myndaði fötluð börn í Öskjuhlíðarskóla árið 2005 og birti myndaþátt í Morgunblaðinu sem hún hlaut tilnefningu til verðlauna á Visa Pour l'Image-ljósmyndahátíðinni í Perpignan í Frakklandi fyrir. Árið eftir kom hún aftur til landsins og varði mánuði í að mynda börn í sama skóla, á Lyngási og í Safamýrarskóla. Verkefnið bar titilinn „Undrabörn“ en eiginmaður Mark, kvikmyndagerðarmaðurinn Martin Bell, gerði jafnframt myndina „Alexander“ um eitt barnanna. 

Mótaði fremstu ljósmyndara Íslands

Tengsl Mark við Ísland mynduðust þegar þrír íslenskir ljósmyndarar sátu námskeið hjá henni árið 1988. Það voru þeir Ragnar Axelsson (Rax), Páll Stefánsson og Einar Falur Ingólfsson. Í kjölfarið þróaðist mikill vinskapur á milli þeirra og eiginmanns hennar sömuleiðis. Einar Falur, sem er ljósmyndari, fyrrum myndstjóri Morgunblaðsins og núverandi umsjónarmaður menningarefnis þess, efast um að jafn frægur og virtur erlendur ljósmyndari hafi unnið jafnmikið hér á landi og haft viðlíka áhrif. Mark sé einn áhrifamesti heimildarljósmyndari síðustu fimmtíu ára.

Mary Ellen kom fyrst til Íslands í boði Morgunblaðsins og hélt þá fyrirlestur um verk sín í Háskóla Íslands. Hún átti síðar eftir að ræða oft hér um verk sín og sýningar á þeim voru settar upp á Kjarvalsstöðum, í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og í Þjóðminjasafninu.

Árið 2005 bauðst hún til að vinna að nokkrum ljósmyndafrásögnum sérstaklega fyrir Morgunblaðið. Hún gerði myndröð um réttir, aðra um busavígslu og þá þriðju með röð portretta af íslenskum listamönnum eða listamönnum sem hafa starfað á Íslandi. Þar á meðal myndaði hún Kristján Davíðsson, Rax, Eggert Magnússon, Helga Þorgils Friðjónsson og Roni Horn.

Í fyrri ferðum hafði Mary Ellen dáðst að aðbúnaði fatlaðra ungmenna hér á landi og hana dreymdi um að fá að taka myndir í sérskólum. Þetta haust fékkst leyfi til að hún heimsækti Öskjuhlíðarskóla og myndaði hún þar einn og hálfan dag. Eftir að við birtum greinina i Morgunblaðinu fékk Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður Mary Ellen og Martin í samstarf og næsta árið unnu þau að ljósmyndasýningunni og bókinni Undrabörn, um börn í Öskjuhlíðar- og Safamýrarskólum, og kvikmyndinni Alexander, um nemandann Alexander Viðar Pálsson.

„Ég hafði á sínum tíma unnið talsvert með Mary Ellen í New York, þegar ég fór þangað til framhaldsnáms fyrir hennar tilstilli, og fyrir nokkrum árum lagði hún til að við myndum kenna námskeið saman á Íslandi. Það var úr og í samstarfi við fyrirtæki sem hún vann með og heldur úti ljósmyndanámskeiðum víða um lönd, kenndum við alþjóðleg tveggja vikna námskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Nemendur komu víðsvegar að úr heiminum og er óhætt að fullyrða að Mary Ellen hafi notið þess að dvelja hér og starfa. Fimmta námskeiðið var fyrirhugað í sumar en af því verður því miður ekki og er íslenskt ljósmyndalíf fátækara fyrir vikið. Og margir hér á landi sakna nú frábærs ljósmyndara, og góðs og trausts vinar,“ segir Einar Falur.

„John Lennon ljósmyndaheimsins“

Mark skrifaði um Rax í bók með úrvali mynda hans í hinni virtu ritröð Photo Poche í fyrra og borið hróður hans víða um heim. Hún fór jafnframt fögrum orðum um hæfileika hans í viðtali við Malín Brand sem birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2014 þegar hún kom síðast til Íslands.

„Ég er sannfærð um að RAX sé einn af bestu ljósmyndurum samtímans. Hann hefur náð einhverju sem enginn annar hefur náð. Við höfum flest séð myndir frá Grænlandi en ekki eins og myndirnar hans RAX. Þær eru mjög persónulegar og eins og hann komist nær viðfangsefninu en aðrir,“ sagði Mark.

Rax segir sjálfur að Mark hafi verið ótrúleg manneskja og að ástríða hennar fyrir starfinu hafi viðhaldið hans eigin ástríðu. Hann eigi henni mikið að þakka og það sem hann lærði af henni hafi oft komið honum til góða í gegnum tíðina. Hún hafi verið einn merkasti ljósmyndari heimsins.

„Hún var eins og John Lennon ljósmyndaheimsins,“ segir hann.

Þá var Mark sjálf afar hrifin af því að mynda Íslendinga. Lofaði hún hreinskiptni og tærleika fólksins hér í viðtalinu í fyrra.

„Ísland er athyglisverðasta landið í Skandínavíu. Það er einstaklega háþróað en á sama tíma óspillt og ekta. Þetta eru mjög óvenjulegar andstæður. Þrátt fyrir hversu háþróað það er má samt segja að það einkennist af tærleika. Menningin er heillandi og fólkið dásamlegt sem landið byggir. Það er hjartahlýtt, með gott skopskyn og opið fyrir því að láta ljósmynda sig. Það er í raun fólkið sem gerir þetta land áhugavert á sjónrænan hátt,“ sagði hún.
 

Andlátsfrétt The New York Times um Mary Ellen Mark

Myndaþáttur The Guardian með sumum bestu mynda ljósmyndarans

Mary Ellen ásamt eiginmanni sínum Martin Bell.
Mary Ellen ásamt eiginmanni sínum Martin Bell. Lisen Stibeck
Mary Ellen Mark velur myndir ásamt Einari Fal Ingólfssyni (lengst …
Mary Ellen Mark velur myndir ásamt Einari Fal Ingólfssyni (lengst til hægri). Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert