Standa vörð um bráðaþjónustuna

Nú þegar hafa 80 undanþágubeiðnir verið afgreiddar í verkfalli hjúkrunarfræðinga.
Nú þegar hafa 80 undanþágubeiðnir verið afgreiddar í verkfalli hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Árni Sæberg

Verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti og hafa starfsmenn og sjúklingar á Landspítalanum nú þegar orðið varir við áhrifin. Nokkrum dag- og göngudeildum hefur verið lokað og starfsemi annarra hefur skerst verulega. Bráðatilvikum verður sinnt en hægt er að búast við því að biðtími á bráðamóttöku fyrir þá sem hafa minni háttar áverka eða veikindi geti lengst töluvert. Nú þegar hafa 80 undanþágubeiðnir verið afgreiddar.

Í gær og í dag hefur verið reynt að útskrifa sem flesta af sjúkrahúsinu sem eru færir um að fara heim.

Reynt að draga úr innlögnum

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunarsviðs á Landspítalanum segir að í dag séu fleiri tóm rúm á sjúkrahúsinu en í allan vetur. Hún segir að þegar það kemur að útskriftum sé hvert tilvik skoðað fyrir sig.

„Það eru náttúrulega gríðarlega margir sem eru útskrifaðir á Landspítalanum á  hverjum degi alla jafna. Við höfum verið að reyna að draga úr innlögnum á móti og við gerum það mest með því að algjörlega draga niður alla valkvæða starfsemi,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is. „Síðan er skoðað hvert tilvik fyrir sig og hvort þetta séu einstaklingar sem eru færir um að útskrifast heim og hvaða stuðning þeir þurfa að fá þar.“

Sigríður segir að það sé skoðað í hverju tilviki fyrir sig hvort að fólkið geti verið eitt. Í einhverjum tilvikum þurfa ættingjar að sjá um þá útskrifuðu. „Ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um þá útskrifuðu sem hefðu annars ekki verið útskrifaðir, en það eru mjög fáir. Við erum ekki að útskrifa fólk í stórum stíl heldur er alltaf metið hvort að fólk sé í stakk búið eða tilbúið til þess að fara heim.“

Ekki of veikt til þess að fara heim

Að sögn Sigríðar var aðalmarkmið sjúkrahússins að loka hundrað bráðalegurúmum. „Það hefur nú ekki gengið eftir enn sem komið er við höfum þurft að sækja um undanþágur fyrir aukamönnun til að tryggja þjónustuna,“ segir Sigríður. „Við eigum eftir að sjá hvort við náum fjölda sjúklinga hér niður. Það er algjörlega búið að skrúfa niður allt valkvætt og þó það geti beðið í einhvern tíma bíður það ekki endalaust.“

Aðspurð hversu veikt fólkið er sem hefur verið útskrifað af sjúkrahúsinu síðan í gær segir Sigríður að það sé almennt ekki of veikt til þess að fara heim. „Það á ekki að útskrifa héðan fólk sem er of veikt til að fara heim. En margir þeirra þurfa einhverja umönnun og þá er athugað hvort þeir geti fengið hana heima.“

Hún segir að það sé alltaf læknisfræðilegt mat hvort að sjúklingur sé tilbúinn að útskrifast af spítala.

Tregi í loftinu

Sigríður þekkir ekki hvort að börn hafi verið útskrifuð af sjúkrahúsinu sérstaklega vegna verkfallsins en efast um það. „Það er hópur sem við pössum sérstaklega upp á enda eru það mjög viðkvæmir hópar. En eins og með annað þá er það metið í hverju tilviki fyrir sig.  En við höfum lokað fyrir hvíldarinnlagnir í t.d. Rjóðrinu sem er fyrir fötluð og veik börn, en það er ekki bráðastarfssemi heldur hugsuð sem endurhæfing eða hvíld. Við stöndum vörð um bráðaþjónustuna, það er sá hamurinn á okkur.“

Aðspurð hvernig stemmningin sé hjá þeim hjúkrunarfræðingum á sjúkrahúsinu sem eru í vinnu í dag sé segir Sigríður að það sé ákveðinn tregi í loftinu. „Það er líka ákveðinn fyrirkvíðanleiki, þetta er í jafnvægi í augnablikinu en fólk veit ekkert hvernig þetta þróast.“

Nú þegar búið að afgreiða 80 undanþágubeiðnir

Síðast var fundað í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið á mánudaginn. Að sögn Ólafs G. Skúlasonar, formanns félagsins hefur ekki verið boðað til nýs fundar. „Núna erum við að funda okkar á milli, vega og meta stöðuna, ásamt því að halda úti verkfallinu. Við sáum strax að þetta hefur mikil áhrif en nú þegar er búið að afgreiða 80 undanþágubeiðnir, s.s. bæta við 80 hjúkrunarfræðingum,“ segir Ólafur. „Það sýnir sig að stofnanirnar ráða ekki við þetta á þeirri mönnun sem er í boði.“

Mikið álag var á hjúkrunarfræðingum í gær vegna yfirvofandi verkfalls.
Mikið álag var á hjúkrunarfræðingum í gær vegna yfirvofandi verkfalls. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Ólafur G. Skúlason segir að ekki hafi verið boðað til …
Ólafur G. Skúlason segir að ekki hafi verið boðað til nýs fundar í deilunni. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert