Verðugt verkefni og flókin staða

Bryndís Hlöðversdóttir, nýr ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir, nýr ríkissáttasemjari. Jón Baldvin Halldórsson

Bryndís Hlöðversdóttir fékk fyrst í morgun að vita af ákvörðun ráðherra að skipa hana ríkissáttasemjara. Fyrsti vinnudagurinn er á mánudaginn í næstu viku og því hefur Bryndís aðeins næstu fimm daga til að koma sér inn í nýja starfið, en í dag er hún einnig starfsmannastjóri Landspítalans.

Verðugt verkefni og flókin staða

„Þetta leggst í mig sem verðugt og krefjandi viðfangsefni,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is, en hún segist hlakka mikið til að takast á við verkefnið. Hún bætir þó við að staðan í dag sé flókin og í mörg horn að líta.

Bryndís hefur komið víða við á ferli sínum, en hún var lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands árin 1992 til 1995. Þá settist hún á þing fyrir Samfylkinguna til ársins 2005 og tók þá við sem deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst. Árið 2006 varð hún einnig aðstoðarrektor og á árunum 2011-2013 var hún rektor skólans. Frá árinu 2013 hefur hún svo starfað á Landspítalanum. Á þessum tíma hefur Bryndís setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og var frá 2010-2013 varamaður í Félagsdómi.

Komið við á flestum sviðum atvinnulífsins

Hún segir að reynslan af þessum störfum sínum muni væntanlega nýtast mjög vel sem ríkissáttasemjari, en hún segir þessa breiðu reynslu einmitt vera ástæðu þess að hún sóttist eftir starfinu. Segir hún að á árunum hjá ASÍ hafi hún kynnst vel þessu umhverfi kjarasamninga. Í stjórnmálunum hafi hún svo fengið góðan grunn í að kynnast stjórnsýslunni og sjónarhorn atvinnurekandans hafi komið úr stjórnum fyrirtækja og frá rekstorsárunum á Bifröst. Að lokum segist hún hafa fengið dýrmæta reynslu úr opinbera geiranum með starfinu á Landspítalanum.

Tregi að yfirgefa spítalann á þessum tímapunkti

Bryndís segist ætla að nýta næstu daga í að ganga frá lausum endum á Landspítalanum, en fyrst um sinn er gert ráð fyrir afleysingum í stöðu hennar, eða þangað til fyrirhugaðar breytingar á stoðsviðum spítalans hafa verið kynntar næsta haust.

Starfsmenn spítalans hafa ekki síður en einstaklingar á almenna vinnumarkaðinum fundið fyrir kjaradeilunni og aðspurð hvort ekki sé erfitt að stíga til hliðar á vettvangi spítalans núna segir Bryndís að það sé ekki beint erfitt, en að það sé með ákveðnum trega. „Sem betur fer er ég ekki bara ein sem held utan um þessi mál, heldur deildin öll og aðrir í framkvæmdastjórn,“ segir Bryndís.

Frétt mbl.is: Bryndís Hlöðversdóttir nýr ríkissáttasemjari

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert