„Viljum við nýtt bónusland?“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Bónuskerfi fjármálastofnana spilaði stórt hlutverk í hruninu 2008. Í gær safnaðist stór hópur fólks saman hér fyrir utan þinghúsið sem mótmælti öllu mögulegu, m.a. afturhvarfi til þess Íslands sem við þekktum rétt fyrir hrun,“ sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í morgun í umræðum um störf þingsins.

Tilefnið voru fréttir að undanförnu um að íslenska umsýslufélagið ALMC, sem áður hét Straumur-Burðarás, hefði lagt til hliðar 3,4 milljarða króna sem það hygðist greiða í bónusa til lykilstarfsmanna og stjórnarmanna og að fyrrverandi starfsmenn Kaupþings ættu von á bónusum upp á tugi milljóna ef nauðasamningar yrðu samþykktir.

„Höfum við ekkert lært? Ætlum við virkilega að viðhalda bónuskerfi í íslensku fjármálalífi hvort sem bónusinn er 25%, 50% eða 100%? Viljum við nýtt bónusland? Svarið er nei,“ sagði Karl ennfremur.

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, tók undir með Karli en bætti við að fleira þyrfti að laga hér á landi en bónusa hjá fjármálafyrirtækjum.

„En það er svo fjöldamargt annað sem gerir það að verkum að almenningur upplifir að við séum aftur komin til ársins 2007. Það er ekki eingöngu bónuskerfi í bönkunum heldur ákveðið hugarfar sem ríkir líka innan veggja þessa vinnustaðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert