Ýmist ölvaðir eða í vímu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði sex ökumenn í gær og í nótt fyrir hraðakstur, á ótryggðum bifreiðum, ökuréttindalausa og fyrir að valda tjóni í umferðinni. Allir áttu þeir það sameiginlegt að vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða hvoru tveggja.

Um klukkan 18:00 var ökumaður handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur í Hafnarfirði. Hann fluttur á lögreglustöð  til blóðsýnatöku og var frjáls ferða sinna að henni lokinni.

Um svipað leyti var ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna við akstur í Grafarholti. Var hann að auki ökuréttindalaus þar sem hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Bifreiðin var einnig ótryggð. Ökumaðurinn var fluttur handtekinn á lögreglustöð til blóðsýna- og skýrslutöku. Var hann frjáls ferða sinna að því loknu.

Lögreglan handtók ökumann vegna gruns um ölvun við akstur á Höfðabakka um níu leytið í gærkvöldi. Ökumaður var að auki ökuréttindalaus þar sem hann hafði verið sviptur þeim fyrir nokkru. Bifreið hans var einnig ótryggð. Ökumaðurinn var fluttur handtekinn á lögreglustöð til blóðsýna- og skýrslutöku. Var hann frjáls ferða sinna að því loknu.

Um miðnætti var ökumaður stöðvaður á Vesturlandsvegi við Korpúlfsstaði fyrir aka á 108 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn var að auki grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna og var handtekinn vegna þess. Var hann fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku og var frjáls ferða sinna að því loknu.

Lögreglunni barst tilkynning um umferðaróhapp á Hringbraut síðdegis í gær þar sem tveir bifreiðar lentu saman. Í ljós kom að annar ökumaður bifreiðarinn var undir áhrifum lyfseðilsskyldra verkjalyfja og því ekki á ástandi til þess að aka bifreið. Gaf hann að auki upp rangar persónuupplýsingar. Var hann fluttur á lögreglustöð til blóðsýna- og skýrslutöku. Var hann frjáls ferða sinna að því loknu.

Það var síðan um tvöleytið í nótt sem lögreglan handtók ökumann vegna gruns um að hann væri undir áhrifum áfengis við akstur í miðborginni. Ökumaðurinn var að auki ökuréttindalaus þar sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Var hann fluttur á lögreglustöð og var svo frjáls ferða sinna eftir blóðsýnatöku.

Sá eini sem ratar í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem ekki var undir áhrifum vímuefna við akstur er maður sem ekki fór að fyrirmælum lögreglu við mótmæli á Austurvelli í gær. Sá virti að vettugi lokanir lögreglu fyrir utan Alþingi og var fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var af honum skýrsla. Honum var sleppt að því loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert