Hjóla alræmdasta þjóðveg landsins

Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Börn í 6. til 10. bekk Reykhólaskóla ætla að hjóla einn alræmdasta þjóðveg landsins, Vestfjarðaveg 60 á laugardaginn, endimarka á milli og jafnframt sýslumarka á milli. Ferðin hefst við brúna yfir Kjálkafjörð og lýkur á þveruninni yfir Gilsfjörð en með ferðalaginu vilja krakkarnir safna áheitum fyrir Danmerkurferð barna í 6. til 8. bekk en einnig vekja athygli á ástandi vegamála í Reykhólahreppi.

Greint er frá ferð hópsins á heimasíðu Reykhólahrepps. Þar segir að vegalengdin sem krakkarnir hjóla milli Vestur-Barðastrandarsýslu í vestri og Dalasýslu í austri sé um 120 kílómetrar, þar af nokkrir tugir kílómetra á óbundnu slitlagi.

Krakkarnir hjóla tveir og tveir saman, fimm kílómetra í einu en erfiðustu kaflarnir verða yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls í Gufudalssveit, þar sem vegurinn er snarbrattur með mjög kröppum beygjum og lítið annað en flughál drulla í vætutíð á sumrin að því er fram kemur á vef Reykhólahrepps.

Hópurinn býður öllum þeim sem vilja að hjóla með sér síðasta spölin upp á Þröskulda að Gilsfjarðarbrú. Áætlaður tími við vegamótin er um klukkan sjö um kvöldið. Lögð er áhersla á að börn séu í fylgd með fullorðnum og með hjálm, komi þau og hjóli síðasta spölin.

Frekari upplýsingar og styrktarreikning hópsins má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert