Orkuveitan fékk hvatningarverðlaun

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti í dag Bjarna …
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti í dag Bjarna Bjarnasyni forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur Hvatningarverðlaun jafnréttismála Ljósmynd/Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti í dag Bjarna Bjarnasyni forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur Hvatningarverðlaun jafnréttismála. Í tilkynningu segir að OR hafi um árabil unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum fyrirtækisins.

Markmiðið með verðlaununum er að vekja athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að OR hafi stigið veigamikil skref til jafnréttis og sé í markvissri vinnu við að jafna stöðu kynjanna og hafi stuðlað að framgöngu fjölda verkefna í samstarfi við menntastofnanir, til að fylgja eftir því markmiði að efla hlut kvenna í karllægum geira.

Samhliða því hafi fyrirtækið unnið markvisst að því að breyta vinnuumhverfinu þannig að það henti betur þörfum beggja kynja, meðal annars með auknum sveigjanleika og styttingu vinnutíma til að stuðla að auknu jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs.

Að baki Hvatningarverðlaunum jafnréttismála standa auk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis,  landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð.

Verðlaunin eru nú veitt í annað sinn en á síðasta ári féllu þau í skaut Rio Tinto Alcan. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að auknum möguleikum beggja kynja til starfsframa, jöfnum launum kynjanna, jöfnum hlutföllum kynjanna í stjórnendastöðum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert