Samþykkja byggingu kísilvers

Helguvík.
Helguvík. Ljósmynd/Reykjanesbær

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt breytingar á deiliskipulagi fyrir lóð Thorsil í Helguvík. Einnig hefur Umhverfisstofnun auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir nýtt kísilver Thorsil. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Thorsil.

Segir þar að eftir ítarlega skoðun hafi það verið niðurstaða Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar að fyrirhuguð stóriðja í Helguvík muni vera innan þeirra mengunarmarka sem krafist er í lögum, reglum og starfsleyfum. Ráðið telur einnig að deiliskipulagsbreytingin samræmist aðalskipulagi Reykjanesbæjar.

Í framhaldinu mun Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar setja skýra skilmála um vöktun og mengunarvarnir í greinargerð með deiliskipulaginu og leitast þannig við að tryggja að framtíðarstarfsemi í Helguvík muni standast þær kröfur sem gerðar eru til stóriðju í nálægð við íbúabyggð, að því er fram kemur í tilkynningu Thorsil.

Tillaga Umhverfisstofnunar að starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík verður auglýst á tímabilinu 28. maí til 25. júní, auk þess sem stofnunin mun halda opinn kynningarfund um tillögu sína.

Fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar

Umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar bárust 287 athugasemdir frá íbúum sem lýstu yfir áhyggjum vegna mögulegrar mengunar og neikvæðra áhuga á bæði dýr og menn. Í svari skipulagsráðsins er vitnað í mat Skipulagsstofnunar, þar sem fram kemur „að í matsskýrslu Thorsil sé sýnt fram á að styrkur ryks og köfnunarefnisoxíða vegna samlegðaráhrifa með kísilverksmiðju United Silicon og álveri Norðuráls verði innan marka reglugerðar nr. 251/2002, hvað varðar skammtímaviðmið (klukkustundar-og sólahringsgildi) og ársmeðaltal.“

Athugasemdir bárust einnig frá sjö öðrum félögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert