Slydda á Akureyri

Það er ekkert sérstaklega hlýlegt að horfa yfir Akureyri en …
Það er ekkert sérstaklega hlýlegt að horfa yfir Akureyri en þar er hitinn um frostmark. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það er heldur betur kalt í veðri víða á landinu og á Akureyri er slydda og það snjóar í Víkurskarði. Það sama er uppi á teningnum á Vestfjörðum, snjókoma á Flateyri og Bolungarvík.  Á höfuðborgarsvæðinu er þriggja stiga hiti.

Vegir eru greiðfærir á Suðurlandi en á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku, hálkublettir á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er þæfingur á Þröskuldum og þungfært á Steingrímsfjarðarheiði en unnið að hreinsun. Þæfingsfærð er einnig á Hrafnseyrarheiði og snjóþekja á Klettshálsi, Dynjandisheiði og Gemlufallsheiði.

Það er að mestu greiðfært á Norðurlandi en þó er snjóþekja á Þverárfjalli og hálkublettir í Köldukinn, Mývatnsheiði og Mývatnsöræfum.

Greiðfært er á Austurlandi og Suðausturlandi.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðlæg átt, 10-15 m/s V-lands, en annars 5-10. Rigning eða slydda með köflum N-til á landinu, en birtir til syðra. Hægari með kvöldinu, norðan 5-10 og víða skúrir á morgun, en léttskýjað S-til. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst.

Veðurspá fyrir næstu daga:

Á föstudag:
Norðaustlæg átt, 5-10 m/s og skúrir eða slydduél, en víða bjart á S- og V-landi. Hiti 3 til 12 stig að deginum, hlýjast syðst.

Á laugardag:
Vaxandi austanátt og þykknar upp, 13-20 m/s og rigning S-til um kvöldið, en annars mun hægari og þurrt að kalla. Hiti 4 til 11 stig, hlýjast V-lands.

Á sunnudag:
Austan og norðaustan 10-18 m/s, hvassast NV-til og við SA-ströndina. Víða dálítil væta, en úrkomulítið V-lands. Fremur svalt í veðri.

Á mánudag:
Ákveðin norðaustanátt með skúrum eða slydduéljum og svölu veðri, en milt og bjart SV-til.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga eða breytilega átt með skúrum og jafn vel slydduélum NA-til. Áfram fremru svalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert