„Þetta er ástand sem er óþolandi“

Aðsetur landlæknisembættisins er við Barónsstíg.
Aðsetur landlæknisembættisins er við Barónsstíg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ljóst er að margra vikna verkfall BHM auk uppsafnaðs vanda vegna verkfalls lækna síðastliðinn vetur hefur skapað ástand sem gerir það að verkum að áhrif verkfalls hjúkrunarfræðinga mun koma til með að verða gríðarleg. 

Þetta kemur fram í mati stjórnenda heilbrigðisstofnana á áhrifum verkfalls hjúkrunarfræðinga sem Embætti landlæknis leitaði eftir. 

Í minnisblaði frá embættinu kemur fram að stjórnendur stofnana nota hugtök eins og fordæmalaust ástand og neyðarástand yfir þær aðstæður sem fljótt muni skapast, þrátt fyrir að allt verði gert sem hægt er til að tryggja lágmarksþjónustu og öryggi sjúklinga.

„Sýnt þykir að slíkar aðstæður skapa verulega ógn við öryggi sjúklinga og hafa viðkomandi stjórnendur varað eindregið við þeirri ógn. Ástand heilbrigðisþjónustu er nú með þeim hætti að mikil óvissa, óöryggi og ótti ríkir, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki,“ segir í minnisblaðinu.

Þar kemur jafnframt fram að verkfall hjúkrunarfræðinga mun auka stórlega á þann víðtæka vanda sem nú er fyrir hendi og að í hnotskurn má segja að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga og getur því ástandið valdið ómældum og óbætanlegum skaða.

Á minnisblaðinu má einnig lesa álit Embættis landlæknis og þar kemur fram að í ljósi þeirra gagna sem embættið hefur undir höndum frá viðkomandi stofnunum er rík áhersla lögð á alvarleika málsins og hversu brýnt er að gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi þeirra sem til heilbrigðiskerfisins leita.

„Það ástand sem getur fljótt skapast nái verkfall hjúkrunarfræðinga fram að ganga getur valdið óbætanlegu tjóni og skaðað heilbrigðisþjónustuna og þá sem þjónustuna nota verulega, bæði til skamms tíma og lengri tíma litið. Þetta er ástand sem er óþolandi og því verður að ljúka með einum eða öðrum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert