Tónn sleginn fyrir náttúruvernd

Níumenningarnir voru ákærðir og dæmdir fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. …
Níumenningarnir voru ákærðir og dæmdir fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Refsing þeirra var skilorðsbundin í Hæstarétti í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur sló mikilvægan tón fyrir náttúruvernd á Íslandi í dag, að sögn Gunnsteins Ólafssonar, eins níumenninganna sem ákærðir voru fyrir mótmæli í Gálgahrauni. Dómur yfir þeim var skilorðsbundinn í Hæstarétti og telur Gunnsteinn það mikinn sigur.

Níumenningarnir höfðu verið dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu þegar þeir mótmæltu framkvæmdum við nýjan Álftanesveg um Gálgahraun árið 2013. Var þeim gert að greiða 100.000 krónur í sekt hverjum. Hæstiréttur ákvað hins vegar að skilorðsbinda refsinguna til tveggja ára í dag.

Þó að Gunnsteinn sé þeirrar skoðunar að dómur Hæstaréttar í dag sé mikill sigur þá segist hann ekki fullkomlega sáttur við niðurstöðuna.

„Ég hefði viljað fá sýknu. Í rauninni er dómurinn að segja það að lögreglan hafi farið offari. Það var farið algerlega farið yfir öll siðferðisleg mörk í réttarfari. Þeir líta samt greinilega á þetta sem brot hjá okkur því við fáum tveggja ára skilorð en ef við höldum það fellur öll refsing niður. Það segir okkur að þetta var þá í rauninni ekkert brot,“ sagði Gunnsteinn þegar dómurinn lá fyrir.

Nýttu sér stjórnarskrárvarinn rétt til mótmæla

Í dómunum kemur fram að við ákvörðunina um að skilorðsbinda refsingu níumenninganna hafi verið litið til þess að þeir hafi ekki áður hlotið refsingu og að fyrir þeim hafi vakað að standa vörð um náttúruverðmæti sem þeir töldu að verið væri að vinna óbætanlegan skaða. Þeir hafi nýtt sér stjórnarskrárvarinn rétt til að mótmæla þó að þeir hafi gengið lengra en heimilt var í þessu tilfelli.

Gunnsteinn telur að dómurinn sé fordæmisgefandi og segir að Hæstiréttur hafi sagt að fólk eigi rétt til að vera með friðsamleg mótmæli að minnsta kosti að vissu marki. Með þessu hafi Hæstiréttur slegið mikilvægan tón fyrir náttúruvernd á Íslandi.

„Núna er viðurkennt að við eigum okkar málsbætur og við erum ánægð með það,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert