„Aðgerðir sem koma öllum til góðs“

Tekjuskattur verður lækkaður um næstu áramót og svo aftur um áramótin 2016/2017. Neðsta þrepið lækkar niður í 22,5% úr 22, 86%. Milliþrepið verður afnumið í áföngum en álagið í efra þrepi verður 9,3%. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag. 

Bjarni sagði á fundinum í dag að það hafi verið eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar þegar hún var mynduð árið 2013 að einfalda skattkerfið og taka skatta til lækkunar. „Við lækkuðum skatt í milliþrepinu en nú ætlum við að afnema milliþrepið í áföngum en líka að lækka neðsta þrepið og það eru aðgerðir sem koma öllum til góðs.“

Að sögn Bjarna eru það í raun aðeins þeir sem eru með allra hæstu tekjurnar í landinu sem sjá lítinn eða engan ávinning á breytingunum. „Allir aðrir sjá ávinning, sérstaklega millistéttarfólk það er fólkið sem að kannski sér minna ávinning úr kjarasamningum sem eru í fæðingu en þeir sem eru tekjulægri.“

Að sögn Bjarna verður tekjuskatturinn lækkaður fyrst um næstu áramótin og svo aftur um áramótin 2016/2017. „Þá verður búið að lækka neðsta þrepið niður í 22,5% í tekjuskatti. Útsvarið er að meðaltali 14,44% sem leggst þarna ofan á,“ útskýrði Bjarni. „Við erum að fara úr 22, 86% í 22,5% í lægsta þrepið. Álagið sem kemur síðan þegar fólk færist í efra þrepi verður 9,3%. „Þannig verður hámarkstekjuskattsprósentan að þessum breytingum afstöðnum verður hin sama og hún er í dag.

Áætlað er að breytingarnar kosti ríkið um 16 milljarða króna á tímabilinu. 

„En hvaða áhrif hefur þetta á tekjur fólks?“ spurði Bjarni á fundinum. „Við erum að leiða fram breytingar sem leiða til þess að ráðstöf­un­ar­tekj­ur um 65% full­vinn­andi launa­manna munu aukast um 50 þúsund eða meira á ári og ráðstöf­un­ar­tekj­ur launþega með meðal­tekj­ur munu aukast um tæp­ar 100 þúsund á ári.

Bjarni greindi jafnframt frá því að um næstu áramót verður fallið frá tollum á skóm og fatnaði. „Það mun vera til þess að auka kaupmátt og draga úr verðlagi á  þessum varningi í landinu vonandi til að færa verslun aftur heim í auknum mæli,“ sagði Bjarni.

Fyrri fréttir mbl.is:

Lækka tekjuskatt einstaklinga

Auka ráðstöfunartekjur allra hópa

Eygló Harðardóttir, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynna aðgerðir …
Eygló Harðardóttir, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynna aðgerðir ríkisstjórnarinnar á fundi í dag. mbl.is/Golli
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar skipta miklu við gerð kjarasamninga.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar skipta miklu við gerð kjarasamninga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert