Allt í pattstöðu hjá BHM og ríkinu

BHM og samninganefnd ríkisins funduðu húsi ríkissáttasemjara í dag.
BHM og samninganefnd ríkisins funduðu húsi ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Kristinn

Á sjötta tímanum í dag sleit ríkið samningaviðræðum við BHM og er málið nú í pattstöðu. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar og segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM að ekki sé líklegt að nýr fundur verði haldinn um helgina.

Höfnuðu tilboði og lögðu fram nýtt

Í dag lagði ríkið fram tilboð í deilunni sem var álíka þeim samningum sem samist hafði um á almenna markaðinum. BHM hafnaði því tilboði og segir Páll að í því hafi ekki verið horft til helstu kröfu félagsins um að menntun væri metin til launa.

BHM lagði í kjölfarið fram annað tilboð og segir Páll að þar hafi verið ítrustu kröfur félagsins sem þeir væru tilbúnir að semja út frá. Svarið frá ríkinu hafi verið á þann veg að ekki væri hægt að semja um annað en ríkið væri að leggja fram. Samninganefnd ríkisins sleit því viðræðunum á sjötta tímanum í dag eftir miklar samningaviðræður.

Enn munar heilmiklu

Páll segir að enn muni heilmiklu á samningsaðilum og að það gangi ekki að ríkið segi bara hvað sé í boði og sé svo ekki tilbúið í neinar viðræður. „Eins og málið stendur núna er allt í pattstöðu,“ segir Páll. Bætir hann við að á næstu dögum muni félagið áfram fylgja eftir sínum kröfum og sjá hvað gerist.

Segir hann að samningarnir á almenna markaðinum hafi ekkert fordæmisgildi fyrir samninga BHM, enda séu mismunandi forsendur í þessum tveimur málum. Hjá BHM sé verið að leitast eftir viðurkenningu á því að meta menntun til launa, eins og tíðkist í löndunum í kringum okkur.

Hugmyndir BHM ekki fengið hljómgrunn

Aðspurður hvort félagið sé að bíða eftir aðkomu ríkisstjórnarinnar eða hvort horft sé til loforða frá henni. Segir Páll að BHM hafi ekki verið með kröfur í þeim efnum, en að vissulega sé horft til skattamála. Önnur atriði sem þeir hafi lagt til, t.d. hugmyndir um að létta greiðslubirgði námslána hafi aftur á móti ekki fengið hljómgrunn hjá samninganefnd ríkisins.

„Í augnablikinu gerist ekki mikið, en við verðum að halda áfram, hvort sem það er í sitt hvoru horninu eða við samningaborðið,“ segir Páll. Ekkert hafi miðað áfram í dag og segir hann að ekki sé búist við neinu um helgina heldur.

Lægstu laun verði upp undir 400 þúsund

Aðspurður hvaða launakröfur félagið sé að fara fram á, segir Páll að það sé ekki ósvipað almenna markaðinum þegar tekið sé mið af menntun. Þannig sé horft til þess að lægstu laun verði komin upp undir 400 þúsund krónur á mánuði. Slík hækkun eigi þó við um lægst launuðu stéttirnar. Að öðru leyti sé horft til þess að menntun sé metin til launa.

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert