Hrósar starfsfólki Landspítalans

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans þakkar starfsfólki spítalans sérstaklega fyrir frábæra frammistöðu og að hafa hlaupið til, jafnvel af kjarasamningafundi, til að aðstoða eftir alvarlegt slys sem varð við Hellissand í gær. Þetta kemur fram í föstudagspistli hans sem birtist á heimasíðu spítalans.

Segir Páll að verkföll BHM og hjúkrunarfræðinga hafi gífurleg áhrif á starfsemi spítalans, þar sem allar stéttir gegna lykilhlutverki í flókinni meðferðakeðju sjúklinga. Sagði hann að margir innan þessa geira hafi valið hann af einlægum áhuga, jafnvel hugsjón og því geti skrefin frá sjúkrabeði sjúklinga verið þung.

Í gær hafi svo innri maður starfsfólksins komið í ljós þegar kalla þurfti út verulegan auka mannskap; á myndgreiningu, bráðamóttöku, svæfingu, vöknun, gjörgæslu og jafnvel víðar. Um 20 starfsmenn, þar af margir í verkfalli, voru kallaðir út með örskömmum fyrirvara, segir Páll í bréfinu. Segir hann að ekki hafi staðið á viðbrögðum sem hafi hoppað til á örskotsstund.

„Ég vil þakka ykkur öllum frábæra frammistöðu, þar sem starfsfólk Landspítala sýndi enn og aftur hvílíkur kraftur býr í fagmennsku og einbeittum vilja þeirra sem vilja  láta gott af sér leiða,“ segir Páll í loki bréfsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert