„Grimmur og hjartalaus“ Íslendingur dæmdur fyrir kókaínsmygl

Kókaín. Mynd úr safni.
Kókaín. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Íslenskur karlmaður hefur verið dæmdur í sjö ára fangelsi eftir að hafa reynt að smygla tæpu kílói af kókaíni til Ástralíu í ferðatösku félaga síns, sem einnig er Íslendingur. Sá hafði setið í fangelsi í Ástralíu í 567 daga, þar sem hann horfði fram á möguleikann á 25 ára fangelsi.

Dómari í Melbourne lýsti manninum sem „grimmum og hjartalausum“ fyrir að hafa misnotað félaga sinn með þessum hætti.

Maðurinn sem bar ábyrgð á smyglinu sagði að félagi hans hefði ekki haft minnstu hugmynd um hvað stæði til þegar hann lagði til að þeir færu saman í frí til Ástralíu. Hann bauðst sjálfur til að greiða fargjaldið og leggja til ferðatösku.

Töskurnar sem þeir ferðuðust með þykja vel til þess fallnar að smygla fíkniefnum, en hann var sjálfur með 1,2 kíló af kókaíni í sinni ferðatösku. Maðurinn er sagður hafa smyglað efnunum til að losna undan 2,7 milljóna króna fíkniefnaskuld á Íslandi.

Þegar dómarinn ákvarðaði manninum refsingu horfði hann til þess að á unglingsárum hefði maðurinn átt í vanda vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu, auk þess sem sú einangrun sem fylgir því að vera í fangelsi í Ástralíu gæti verið Íslendingi þungbært.

Frétt The Age

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert