Karólína bæjarlistamaður Garðabæjar

Karólína Eiríksdóttir eftir að hafa tekið við nafnbótinni.
Karólína Eiríksdóttir eftir að hafa tekið við nafnbótinni. Ljósmynd/Garðabær

Karólína Eiríksdóttir tónskáld er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2015. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bænum en tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2015 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti í gær. Ennfremur segir að allt frá árinu 1992 hafi Garðabær veitt styrk til listamanns eða listamanna sem fylgt hefur umræddur titill.

„Þetta var í fjórða sinn sem sérstök menningaruppskeruhátíð er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar til ungra og efnilegra listamanna í Garðabæ sem fengu úthlutaða styrki úr Hvatningarsjóði ungra listamanna vorið 2015. Kvennakór Garðabæjar var einnig heiðraður fyrir öflugt menningarstarf í 15 ár,“ segir áfram. Karólína Eiríksdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík en hélt síðan til framhaldsnáms við University of Michigan þaðan sem hún lauk meistaraprófi í tónlistarsögu og -rannsóknum árið 1976 og meistaraprófi í tónsmíðum árið 1978.

„Hún hefur frá árinu 1979 unnið við tónsmíðar, kennslu og margvísleg önnur tónlistarstörf. Karólína hefur verið í stjórnum Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, Tónskáldafélags Íslands, Listahátíðar í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Tónverk Karólínu hafa verið flutt víðsvegar um heim m.a. á norrænum tónlistarhátíðum og á Íslandi. Verkin eru af fjölbreyttum toga, níu verk fyrir sinfóníuhljómsveit, fjórar óperur, verk fyrir kammerhljómsveitir, kammer- og einleiksverk, verk fyrir einsöngvara og kóra og raftónlist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert