MR útskrifaði 176 stúdenta

Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík.
Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík. KRISTINN INGVARSSON

Menntaskólinn í Reykjavík útskrifaði stúdenta frá skólanum í dag og fór athöfnin fram í Háskólabíói. Að þessu sinni voru 176 stúdentar útskrifaðir, 8 úr fornmáladeildum, 24 úr nýmáladeildum, 54 úr eðlisfræðideild og 90 úr náttúrufræðideildum. Kynjahlutfall stúdenta er jafnt, 88 stúlkur og piltar. Kristín Björg Bergþórsdóttir var dúx en hún hlaut einkunnina 9,56. Fjölmargir aðrir hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur. 

Yngvi Pétursson, rektor, kom víða við í ræðu sinni. Hrósaði hann nemendum fyrir blómlegt félagslíf og frábæran árangur í hinu ýmsu keppnum en MR sigraði í spurningakeppninni Gettu betur og Karólína Jóhannsdóttir vann Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd skólans.

Vék hann einnig að þeim þrengingum sem skólinn stendur frammi fyrir þegar nám til stúdentsprófs verður stytt úr fjórum árum í þrjú. Sagði hann að þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um skerðingu á námi til stúdentsprófs hefði beiðni skólans um undþágu verið hafnað. „Það hryggir mig og marga aðra mikið að horfast í augu við þá staðreynd að fjögurra ára nám á framhaldsskólastigi virðist því miður ekki vera í boði miklu lengur á Íslandi.“

Fjölmargir eldri stúdentar frá skólanum voru viðstaddir athöfnina eins og venja er. Elstu stúdentar landsins eru bekkjabræðurnir Pétur Sigurjónsson og Rögnvaldur Þorkelsson, sem urðu stúdentar 1936 og eru því 79 ára stúdentar.

MR sigraði spurningakeppnina Gettu betur í vetur.
MR sigraði spurningakeppnina Gettu betur í vetur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert