Kjarasamningar undirritaðir í Karphúsinu

Kjarasamningarnir undirritaðir.
Kjarasamningarnir undirritaðir. mbl.is/Gunnar Dofri

Samninganefndir Flóa­banda­lags­ins, Stétt­Vest, Starfsgreinasambandsins, VR og Land­sam­bands ís­lenskra versl­un­ar­manna undirrituðu rétt í þessu nýja kjarasamninga í húsnæði ríkissáttasemjara.

Skrifað verður undir þrjá mismunandi samninga, kjarasamninga VR og LÍV, kjarasamninga SGS og kjarasamninga Flóabandalagsins. 

Að sögn Magnúsar Péturssonar, ríkissáttasemjara hafa þessir samningar áhrif á 65-70 þúsund starfsmenn á landinu. „Það segir sig sjálft að það er stærsti hlutinn af vinnumarkaðinum á Íslandi,“ sagði Magnús.

„Ég vil þakka því frábæra fólki sem við höfum unnið hér með streitulaust í marga daga,“ sagði Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, eftir undirritunina í dag. „Það er áhugavert að sjá svona stóra hópa koma saman, reynsluboltar hér innanhúss, en fyrst og síðast var vinnan okkar lausnarmiðuð. Ástæðan fyrir því að við náðum samning á þessum degi hugsuðum fyrst og fremst út frá lausnum og engu öðru.“

Sigurður Bessason, formaður Eflingar tók í sama streng. „Það er ljóst að við höfum gengið í gegnum erfiðan vetur.Sennilega eru þessir samningar með þeim erfiðustu sem hafa verið gerðar í áratugi og það var ekki sjálfsagt að við myndum ná hér landi.“

Sigurður þakkaði jafnframt félögum sínum í þessu verkefni. „Ég vil þakka frábærum félögum sem ég hef unnið með þennan tíma. Þeir hafa verið alveg óbilandi í því að finna leiðir og lausnir í þessu verkefni okkar,“ sagði Sigurður og þakkaði sérstaklega Magnúsi Péturssyni ríkissáttsemjara en hann lætur af störfum á mánudaginn. „Það er ekkert sjálfgefið starf að stíga inn í það að vera ríkissáttasemjari, alla daga í þeirri vinnu að finna lausnir.“

Í kjölfarið var staðið upp og klappað fyrir Magnúsi.

Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, stuttu …
Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, stuttu áður en samningarnir voru undirritaðir í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert