Stefnt að undirritun klukkan tvö

mbl.is/Eggert

Stefnt er að undirritun kjarasamninga Flóabandalagsins, StéttVest, VR og Landsambands íslenskra verslunarmanna við Samtök atvinnulífsins klukkan tvö í dag samkvæmt upplýsingum frá embætti Ríkissáttasemjara. Fulltrúar félaganna mættu til fundar hjá embættinu klukkan 8:30 í morgun og er unnið að því að leggja lokahönd á samningana.

Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar í dag klukkan 10:20 þar sem forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra ætla að kynna aðgerðir stjórnarinnar til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði.

Fram kemur í fréttatilkynningu að aðgerðirnar felist meðal annars í breytingum á tekjuskatti einstaklinga og ráðstöfunum í húsnæðismálum.

Dagskráin er annars þétt hjá ríkissáttasemjara í dag. Fulltrúar Starfsgreinasambandsins mættu til fundar við SA í morgun klukkan 8:30 að sama skapi sem og verslunarmenn og Félag atvinnurekenda. Klukkan 10:00 funda stéttarfélög starfsmanna álversins í Straumsvík við SA. Klukkan 11:00 mætir samninganefnd BHM til fundar við fulltrúa ríkisins. Þá funda fulltrúar hjúkrunarfræðinga með ríkinu klukkan 13:30. Á sama tíma koma einnig leiðsögumenn og SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert