„Tvísýnt allan tímann“

Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins fær sér væna vöfflu með rjóma.
Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins fær sér væna vöfflu með rjóma. mbl.is/Golli

„Mér líður alveg ágætlega. Þetta er búið að vera mikið álag  en við höfum verið að vinna að þessu síðan í haust, meira og minna. Það hefur verið mikið að gera undanfarna daga, þetta var flókin staða og það var tvísýnt allan tímann hvort að þetta myndi takast eða ekki.“

Þetta segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) eftir undirritun nýs kjarasamnings í húsnæði ríkissáttasemjara í dag.

Þar skrifuðu undir í dag samninganefndir SGS, Flóabandalagsins, VR, LÍV og StéttVest. „Það er gaman að menn skuli skrifa undir á sama tíma,“ segir Björn en samningar félaganna við SA eru eins í flestum atriðum. 

Hann segir að nú taki við vinna við að það að kynna samninganna fyrir félagsmönnum og hefst rafræn atkvæðagreiðsla vonandi í byrjun næstu viku. „Nú þarf bara að kynna þetta og koma þessu til fólksins svo að það geti sagt skoðun sína á þessu,“ segir Björn.

Lægst launuðu hækka mest

Hann segir að kjarasamningarnir muni hafa mikil áhrif á laun félagsmanna, sérstaklega þeirra lægst launuðu. „Það er taxta fólkið sem er að fá mikla hækkun. Nú 25 þúsund krónur og svo 15 þúsund á næsta ári. Þetta hefur heilmikil áhrif á það fólk sem er á lægstu laununum. 1. maí 2018 erum við að sjá í 300 þúsund kallinn í tekjutryggingu og það er það markmið sem við höfum lagt höfuðáherslu á að ná. Við náðum líka meiri árangri gagnvart fisknum og það er annað sem við lögðum áherslu á. Í heildina litið er þetta  ákveðinn sigur miðað við þá stöðu sem var fyrir þremur eða fjórum mánuðum síðan.“

Björn segir að ef nýju samningarnir verða samþykktir verða m.a. greiddir auka bónusar til fiskvinnslufólks og þeir sem reyndastir eru hækka um tvo launaflokka. „Þeir fiskverkamenn sem eru búnir að vera í sjö ár hjá fyrirtæki fá tveggja launaflokka hækkun,“ segir Björn og bætir við að breytingarnar hafi mestu áhrifin hjá þeim með lægstu launin. „Lægsti taxtinn fer í 267 þúsund krónur í lok ársins en lágmarkstryggingin tryggir það að enginn má fá minna fyrir dagvinnu fyrir minna en 300 þúsund krónur.  Það geta verið álög og bónusar en sá sem er eingöngu á taxta launum án nokkurra álaga hann verður að fá 300 þúsund krónur 1.maí 2018.“

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar skiptu miklu máli við gerð kjarasamninganna.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar skiptu miklu máli við gerð kjarasamninganna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert