Koma ekki til móts við iðnaðarmenn

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Fé­lags vél­stjóra og málm­tækni­manna (VM), segir í samtali við mbl.is að kjarasamningarnir sem skrifað var undir í Karphúsinu í gær komi ekki nægjanlega til móts við kröfur félaga iðnaðarmanna. 

Atkvæðagreiðsla um verkfall hjá félögum iðnaðarmanna hófst fyrr í vikunni og stendur til næsta mánudags, 1. júní. Félögin sem taka þátt eru Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Samiðn, MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, Grafía - (FBM) stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum og Félag hársnyrtisveina. Ef félagsmenn samþykkja vinnustöðvun verður tímabundið verkfall 10.-16. júní og ótímabundið verkfall frá 24. ágúst.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilunni á þriðjudaginn.

„Við höfum verið niðrí Karphúsi undanfarna daga og fylgst með, þó svo að við höfum ekki verið í neinum beinum viðræðum við SA,“ segir Guðmundur og bætir við að iðnaðarmenn hafi komið sameinaðir að borðinu með tiltölulega einfaldar kröfur. 

Hann furðar sig á því, segir það „djöfullegt“, að ætla að heimfæra einn kjarasamning yfir alla. „Það er hlutur sem við getum ekki sætt okkur við.“

„Eins liggur við að við erum komnir í þá stöðu, eins og BHM, að krefjast almennilegrar umbunar fyrir menntun í landinu. Til hvers að fjárfesta í menntun ef allir eiga að vera sama helvítis taxtanum?“

„Það er djöfullegt þegar einn aðili fer fram og ætlar að semja fyrir sína umbjóðendur og búa til heilan kjarasamning, eins og í þessu tilviki, þegar einn kjarasamningur er búinn til í kringum 300 þúsund krónurnar og öllu öðru í samfélaginu, hvort sem það er menntun eða eitthvað annað, er rústað. Þetta gengur ekki upp,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert