Leikið til sigurs í Valhöll

Bjarni Benediktsson ávarpaði hópinn. Vignir Smári, skipuleggjandi, stendur hér við …
Bjarni Benediktsson ávarpaði hópinn. Vignir Smári, skipuleggjandi, stendur hér við hlið hans. Mynd/Fálkinn

„Í heildina eru um 100 leikmenn sem eru að keppa í League of Legends, sem er vinsælasti tölvuleikurinn á Íslandi í dag,“ segir Vignir Smári Vignisson, skipuleggjandi tölvuleikjamótsins Fálkinn sem haldið er í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins um helgina.

Mótið hófst í gærkvöldi með riðlakeppni og nú stendur yfir útsláttarkeppni. Á morgun klukkan 13 hefjast svo úrslitin. „Við erum með þrjá stóra sali, tvo fyrir keppendur og einn fyrir áhorfendur. Það hafa komið töluvert af gestum og síðan færa keppendurnir sig yfir í áhorfendasalinn þegar þeir detta út til að fylgjast með leikjunum sem eru í gangi. Við búumst því við yfir 100 áhorfendum á úrslitunum á morgun,“ segir Vignir. Hann segir mótið eitt það stærsta sinnar tegundar á Íslandi. „Það eru til stærri tölvuleikjamót en það sem gerir okkar svo stórt er að það er aðeins keppt í einum leik. Á öðrum mótum mæta fleiri en þá er keppt í mörgum mismunandi leikjum.

Er þetta ekki í fyrsta skiptið sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir tölvuleikjamóti en í fyrra var haldið svokallað XD-lan í kosningamiðstöð flokksins að Stórhöfða í Reykjavík.

„Þá mættu um 60 manns og var það í raun prufukeyrsla. Þetta er í fyrsta skiptið sem tölvuleikjamót er haldið í Valhöll.“

Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, mætti og ávarpaði hópinn í gær. Sagðist hann sjálfur ekki hafa tíma til að spila tölvuleiki, en að honum þætti gaman að mæta og fylgjast með. Þá var hann einnig ánægður með að sjá svona margt ungt fólk í höfuðstöðvum flokksins.

Liðin eyða virki andstæðinganna

Sigurvegararnir á mótinu hljóta vegleg verðlaun. „Sigurvegararnir fá vinningsbikar og 225 þúsund krónur. Við erum líka með í verðlaun ýmis gjafabréf frá styrktaraðilum mótsins sem aðstoðað hafa okkur mikið eins og Dominos og Kísildalur. Þá hafa Ölgerðin, Símafélagið og Opex veitt okkur mikla aðstoð.“

League of Legends er að sögn Vignis tölvuleikur þar sem leikið er í liðum. „Þetta er svokallaður MOBA-leikur. MOBA stendur fyrir Multiplayer online battle area og gengur leikurinn út á að liðin eiga að reyna að eyða virki andstæðinganna. Það er hins vegar ekkert einfalt mál og tekur einn leikur jafnvel klukkutíma.“

Alls er búist við að yfir 100 manns mun fylgjast …
Alls er búist við að yfir 100 manns mun fylgjast með úrslitunum í áhorfendasalnum. Mynd/Fálkinn
Úrslitin fara fram á morgun klukkan 13.
Úrslitin fara fram á morgun klukkan 13. Mynd/Fálkinn
Er þetta í annað sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir tölvuleikjamóti.
Er þetta í annað sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir tölvuleikjamóti. Mynd/Fálkinn
Keppendurnir í League of Legends eru á öllum aldri.
Keppendurnir í League of Legends eru á öllum aldri. Mynd/Fálkinn
Skjáskot úr leiknum sem leikinn er, League of Legends.
Skjáskot úr leiknum sem leikinn er, League of Legends. Leage of Legends
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert