„Þungu fargi af okkur létt“

Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF.
Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er þungu fargi af okkur létt,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) í samtali við mbl.is í kjölfar undirritunar kjarasamninga VR, Starfsgreinasambandsins, Flóa­banda­lags­ins, Stétt­Vest og Land­sam­bands ís­lenskra versl­un­ar­manna í gær.

Fé­lög­in höfðu staðið í kjara­deilu við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins og allsherjarverkfall var yfirvofandi þann 6. júní ef ekki tækist að semja fyrir þann tíma. Hefði þetta haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna í heild. „Maður treysti sér varla að hugsa þá hugsun til enda,“ segir Helga.

Stöðugleiki til lengri tíma

Hún segir að afleiðingarnar hefðu getað orðið afar slæmar fyrir ferðaþjónustuna um allt land, þar sem verkfallið hefði skapað mikla óvissu og óþægindi fyrir ferðamanninn sem og afar neikvæða umræðu á erlendri grundu. Þá hefði það líka haft slæm áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á landi. „Það er ljóst að hefði slík staða komið upp hefði tjónið orðið stórkostlegt, bæði fyrir fyrirtæki í greininni sem og þjóðarbúið í heild sinni," segir hún og bætir við að undirritunin í gær hafi því verið mikill léttir og að samningar til langs tíma auki stöðugleika í rekstrarumhverfi greinarinnar til muna sem er ekki síður mikilvægt.

Þá segir hún greinina tengjast inn í fjölmörg stéttarfélög og því sé það sérstaklega ánægjulegt að þeir samningar sem hafi náðst í gær, eigi bæði við um stéttarfélög í Reykjavík sem og úti á landi. 

Vonar að langtímaáhrifa muni ekki gæta

Aðspurð um það hvort deilurnar muni valda röskun í ferðaþjónustunni fram á sumar segist Helga vona að svo verði ekki. „Menn eru m.a. í góðu sambandi við erlenda ferðaheildsala og aðra þar sem mikið er lagt upp úr því að veita þeim sem bestar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Menn hafa reynt að sýna þessu skilning og ég vona svo sannarlega að það verði ekki alvarleg langtímaáhrif,“ segir hún.

Helga rifjar upp stöðuna á síðasta ári og líkir stöðunni við verkfall flugstéttanna í fyrravor. „Við vorum í raun í svipaðri stöðu þá sem olli mikilli óvissu á mörkuðum. Ferðaheildsalar og aðrir eru minnugir þeim tíma en endurtekin óvissa og óstöðugleiki í öllu rekstrarumhverfi hefur afar slæm ímyndar- og orðsporsáhrif fyrir Ísland sem ferðamannalands,“ segir hún. Það dragi úr trúverðugleika þegar síendurtekið óvissuástand kemur upp og því sé gerð langtímasamninganna nú afar stórt og mikilvægt skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert