30% fleiri í Skaftafelli í maí

Þessi mynd var tekin í Skaftafelli í júlí 2004 en …
Þessi mynd var tekin í Skaftafelli í júlí 2004 en þá var örlítið hlýrra en í dag. mbl.is/Rax

Frá 1. til 29 maí taldi teljarinn í gestastofunni við Skaftafell um 32 þúsund heimsóknir. Eru það umtalsvert fleiri en heimsóknir í maí mánuði í fyrra en þær voru um 25 þúsund talsins. Regína Hreinsdóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, tekur fram að tölurnar taki ekki til fjölda gesta heldur einfaldlega fjölda heimsókna en segir aukninguna á heimsóknum þó eðlilega haldast í hendur við fjölgun ferðamanna. 

„Upp úr 10. maí fór gestafjöldinn að vera alltaf yfir þúsund á dag en var alltaf yfir 600 í fyrra langt frameftir mánuðinum. Núna er sennilega um 150 bílar daggesta á bílastæðunum, fyrir utan þá sem eru á tjaldstæðinu,“ segir Regína. 

Regína segir að í heildina hafi gestafjöldi í mánuðinum aukist um u.þ.b. 30 prósent frá því í fyrra. „Það hefur verið mjög mikil aukning yfir vetrartímann síðustu árin en langmest núna í vetur og fyrra vetur. Þetta byrjaði svolítið með þessum Norðurljósaferðum og ísjakaferðum sem eru orðnar svo rosalega vinsælar en með þeim fór umferðin að aukast mjög hratt.“

Regína segir frekar fátítt að sjá Íslendinga á tjaldsvæðinu í maí mánuði en að þó komi einn og einn hópur, minna af einstaklingum, pörum eða fjölskyldum. Hún segir lítið um að Íslendingar hætti sér í tjöldin í maí en að erlendir gestir virðist hvergi bangnir. 

„Það er töluverð tjaldgisting, þessi hópur sem ferðast í tjöldum er ekkert að spá í því hvort það sé maí eða júlí. Það er búið að vera tiltölulega kyrrt veður og þó það hafi verið kallt þá höfum við verið heppin því það hefur ekki orðið eins kallt og getur orðið þegar það er rok.“

Regína segir göngustígana í Skaftafelli láta mikið á sjá eftir vetrarumferðina en að unnið sé að því að taka gönguleiðina að Svarta Fossi í gegn svo hún haldi sér á veturna. „Fólk gengur alltaf út fyrir ef það getur ekki gengið á stígnum og yfir vetrartímann er þetta oft bara drullusvað. En við erum búin að vinna mikið í þeirri gönguleið og stefnum á að gera hana aðgengilega allt árið, eins og gönguleiðina sem við erum með inn að Skaftafellsjökli.“

Svartifoss í Skaftafelli
Svartifoss í Skaftafelli mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert