Ákvað að hleypa gleði inn í lífið

Þórey Vilhjámsdóttir
Þórey Vilhjámsdóttir Árni Sæberg

Þórey Vilhjálmsdóttir bætti hressilega í reynslubankann á árinu 2014 þegar vinnustaður hennar, innanríkisráðuneytið, fór á hvolf vegna lekamálsins og hún gekk í gegnum skilnað á sama tíma.

Þórey tók ákvörðun um að koma sterkari frá þessum stormi. Það var henni mikið áfall þegar náinn samstarfsmaður, Gísli Freyr Valdórsson, játaði að hafa lekið minnisblaði með trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu. Þórey stendur á tímamótum í starfi og einkalífi en um áramótin setti hún sér það markmið að hleypa gleði inn í líf sitt að nýju. Í byrjun árs var hún skipuð formaður Ferðamálaráðs auk þess sem hún tók þátt í sinni fyrstu hjólakeppni nú í maí. 

Við mælum okkur mót á 101 hótelinu í Ingólfsstrætinu. Sá staður reynist hentugur því þar er enginn gestur. Við höfum staðinn því fyrir okkur og getum rætt saman í friði. Blaðamaður pantar kaffi en Þórey er skynsamari – fær sér piparmyntute.

Þórey réðst til starfa sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að loknum þingkosningum 2013. Starf aðstoðarmanns ráðherra er krefjandi – en sá ólgusjór sem lekamálið hafði í för með sér var þó líklega ekki í upphaflegu starfslýsingunni. Líkt og alþjóð veit óskaði Hanna Birna lausnar sem ráðherra eftir að samstarfsmaður hennar og Þóreyjar, Gísli Freyr Valdórsson, játaði í nóvember 2014 að það hefði verið hann sem lak trúnaðarskjölum með persónuupplýsingum um skjólstæðinga ráðuneytisins til fjölmiðla.

Þórey hefur fram til þessa ekki rætt um þessa reynslu sína við fjölmiðla. Hún segist einfaldlega hafa þurft tíma.

Hér má sjá viðtal Sunnudagsmoggans við Þóreyju. 

Endurnærð eftir hjólaferðir

„Eftir stormasamt ár ákvað ég að ég þyrfti að gefa mér tíma til að ná mér, endurnæra mig og finna gleðina aftur. Ég setti það sem áramótaheit: gleði,“ segir hún og brosir.

Síðustu áramót voru ákveðinn vendipunktur fyrir Þóreyju. Daginn fyrir gamlárskvöld bauð hún til sín konum sem á einhvern hátt hafa stutt hana og veitt henni innblástur. Hún hélt þeim veislu og ákvað að sprengja árið 2014 upp – bókstaflega – og segja skilið við erfiðleikana sem einkenndu árið.

„Þegar maður finnur að í marga mánuði hefur gleðistundunum fækkað skuggalega mikið með hverjum deginum sem líður þá veit maður að það er eitthvað virkilega að. Ég tók meðvitaða ákvörðun um áramótin um að hleypa gleði inn í líf mitt að nýju. Það hefur virkað nokkuð vel og ég er búin að vera á góðu tímabili síðustu mánuði þar sem ég hef einbeitt mér að því að gera eingöngu það sem veitir mér innblástur.

Ég hef einnig stundað hugleiðslu og líkamsrækt markvisst, átt góðan tíma með þeim sem eru mér kærastir og svo er ég komin með nýtt áhugamál; að hjóla. Ég byrjaði í febrúar og fékk algjöra dellu, að hjóla er líka ákveðin hugleiðsla og ég kem alltaf endurnærð úr hjólaferðunum. Þannig að mér hefur með markvissu átaki sem betur fer tekist að finna gleðina og neistann aftur!“

Það er gaman að dvelja í gleðinni og nútíðinni. Við ræðum fyrst um verkefnin sem standa fyrir dyrum núna hjá Þóreyju. Hún tók við sem formaður Ferðamálaráðs í apríl síðastliðnum.

„Það er mikill heiður að fá þetta hlutverk að vera formaður Ferðamálaráðs á þessu mikla vaxtarskeiði ferðaþjónustunnar. Ég er þarna með afar reynslumikla einstaklinga með mér og fæ að taka þátt í að móta umhverfi fyrir atvinnugrein í mikilli sókn.“

Þórey tekur verkefni sem henni eru falin alvarlega og byrjar strax að þylja upp fyrir blaðamann tölur um ferðamennsku og möguleika Íslands á þessu sviði. Hún bendir á að ferðaþjónustan sé orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin á landinu en talið er að greinin muni velta 340 milljörðum á þessu ári sem eru 30% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Fjölgun ferðamanna hafi verið 20% síðustu þrjú árin og á þessu ári munum við taka við milljón ferðamönnum. „Straumur ferðamanna hingað til lands mun því aukast enn á næstu árum og það er nauðsynlegt að styrkja innviðina, huga að náttúrunni og búa í haginn fyrir framtíðina,“ bendir Þórey á.

Stjórnmálin eru karlavettvangur

Úr ferðamálum færist talið yfir í jafnréttismál, en jafnrétti kynjanna hefur verið Þóreyju mikið baráttumál gegnum tíðina. Hún var einn af stofnendum V-dagssamtakanna hér á landi, hefur setið í stjórn UN Women og gegnir nú formennsku hjá Landssambandi sjálfstæðiskvenna. Hún fer á flug þegar talið berst að konum í stjórnmálum.

„Ég var mjög hugsi eftir prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík 2013 þegar ég sá að hæfar og reynslumiklar konur fengu slæma útreið en þrír karlar röðuðu sér í efstu sætin. Þá var um tvennt að velja; vera fúla konan, sitja heim og röfla yfir þessu eða beita mér og gera eitthvað.“

Þórey valdi síðari kostinn og bauð sig fram sem formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og segir að umbóta sé þörf í Sjálfstæðisflokknum og í stjórnmálunum almennt.

„Við verðum að endurskoða allt. Stjórnmálin eru svo mikill karlavettvangur. Konur hafa lítið komið að því að móta þennan vettvang á nokkurn hátt enda ekki langt síðan að þær urðu virkar á vettvangi stjórnmálanna. Við erum, eins og staðan er í dag, þátttakendur á einhverju sviði þar sem karlar hafa fyrir löngu samið allar reglurnar.“

Konur efnilegar lengi – svo búnar

Hún bendir einnig á að karlar hafi mun lengri starfstíma í stjórnmálum en konur.

„Það virðist vera þannig að konur séu efnilegar í langan tíma og svo eru þær einfaldlega búnar. Starfstími kvenna í pólitík er eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af. Karlar eru í áratugi í stjórnmálum en konur staldra því miður allt of stutt við – þessu þarf að breyta.

Svo eru það allar óskrifuðu reglurnar eins og spjallið í bakherbergjum, fundurinn fyrir fundinn og fleira. Leikreglurnar sem eru hreinlega mjög óspennandi og hafa fælandi áhrif fyrir konur,“ segir Þórey.

Konur skila sér síður á kjörstað

Á síðasta flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt að næsti landsfundur, haustið 2015 yrði tileinkaður konum, tillaga sem kom frá Þóreyju og stjórnarkonum í Landssambandi sjálfstæðiskvenna. Hún segir þetta klárlega skref í rétta átt.

„Landsfundurinn verður tileinkaður konum í fyrsta sinn og í því felst skýr vilji framvarðarsveitar flokksins til að auka hlut kvenna í flokksstarfinu. En á endanum er það þó ekki eingöngu forystan sem kýs í prófkjöri. Einhvern tímann sá ég tölur um að það hefðu verið 70% karlar sem tóku þátt í síðasta prófkjöri í Reykjavík. Konur verða líka að skila sér á kjörstað.“

Þórey segir að konur sem stefni inn í stjórnmál fái oft önnur skilaboð en karlar. Þeim sé ráðlagt að stefna á öruggt sæti en taka ekki slagi í prófkjörum. Eitt af því sem stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna hafi gert til að stuðla að breyttum viðhorfum er útgáfa á skopmyndum með þekktum frösum sem konur í stjórnmálum heyra gjarnan, eins og til dæmis spurningunni um „hvort þær eigi ekki of mörg börn til að setjast á þing?“ Teikningar eftir Halldór Baldursson setja frasana í skoplegt samhengi.

„Þetta hljómar eins og lítil hugmynd. En þetta getur breytt miklu. Við erum að reyna að gera lítið úr þessum frösum. Ef það er búið að gera mikið grín að einhverjum frasa þá er ólíklegra að einhver þori að segja hann við konur. Við viljum breyta viðhorfi til kvenna í stjórnmálum.“

Stjórnmálamennirnir gera stjórnmálin óspennandi

Þórey vill horfa á málið í stærra samhengi.

„Við þurfum líka almennt að breyta því hvernig við hugsum og tölum um stjórnmál. Mér finnst alltaf jafn skrýtið þegar fólk segist ekki hafa áhuga á stjórnmálum. Auðvitað hafa allir áhuga á stjórnmálum enda er um að ræða málefni sem varða okkur öll. Ef við tökum bara orðið pólitík og setjum það til hliðar þá hafa allir áhuga á því hvernig nærumhverfið er, í hvað skattarnir fara, hvernig heilbrigðiskerfið er og hvort samgöngurnar virka og svo framvegis. Það eru því miður bara stjórnmálamennirnir sjálfir sem hafa gert þetta óspennandi. Ég held að almenningur vilji ekkert þessar úreltu reglur og hefðir sem gilda í stjórnmálum og því er brýn þörf á hugrökkum stjórnmálamönnum sem þora að breyta, hugsa hlutina upp á nýtt og fara nýjar leiðir.“

Rak módelskrifstofu í Síberíu

Aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum sé klárlega eitt af mikilvægari skrefunum til að bæta menningu stjórmálanna. Þórey hefur alltaf beitt sér fyrir jafnrétti. En hvernig byrjaði þessi áhugi á jafnréttismálum?

„Ég hef alltaf haft sterka réttlætiskennd. Ég held að þessi mikli áhugi á að berjast fyrir auknu jafnrétti hafi kviknað þegar ég rak módelskrifstofur í Síberíu nokkur ár, þó það hljómi kannski eins og þversögn. Á þessum árum, þetta er í kringum 1998-9, var kreppa í Rússlandi og ég kynntist samfélagi sem var mjög ósanngjarnt gagnvart konum. Ég held að þetta hafi haft mikil áhrif en svo er þetta eitthvað sem hefur alltaf verið til staðar hjá mér – sterk réttlætiskennd.“

Heilluð af Píkusögum og Eve Ensler

Það var svo tveimur árum eftir að Þórey hætti með Eskimo módelskrifstofuna að hún sat í stofunni heima hjá sér og horfði á Eve Ensler, stofnanda V-dags samtakanna og höfund Píkusagna í viðtali hjá Opruh og fann þá að hún yrði að gera eitthvað.

„Ég heillaðist algjörlega af henni og hennar málflutningi. Ég vissi að ég yrði að gera þetta á Íslandi. Ég hringdi í Ingibjörgu Stefánsdóttur vinkonu mína og spurði hvort hún væri ekki til í að gera þetta með mér. Við ákváðum að slá til og stofnuðum V-dags samtökin og fengum til liðs við okkur hóp af frábæru fólki. Kjarninn sem starfaði í þessu ásamt okkur í nokkur ár var Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Edda Jónsdóttir og Hildur Sverrisdóttir en það voru ótalmargir sem lögðu okkur lið. Úr varð mikið ævintýri í mörg ár og ég held að okkur hafi tekist ágætlega til. Við stóðum fyrir viðburðum, unnum mikið með Stígamótum, vorum virk í vitundarvakningu og fjáröflun fyrir baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.“

Þórey á erfitt með að hætta þegar hún talar um jafnréttismál. Málefni kynjanna og nauðsyn þess að berjast gegn kynbundnu ofbeldi eru henni hjartans mál.

„Það er bara einhvern veginn þannig að þegar þú byrjar að sjá allt ranglætið sem konur verða fyrir þá er þetta eins og að fara út í á, þú bara berst með straumnum og getur ekkert snúið við og farið að synda á móti. V-dagurinn var mikið grasrótarstarf og gríðarleg vinna. Ég fann fyrir tómleika eftir að ég hætti í V-deginum árið 2008 og fann að ég varð að halda áfram að beita mér í þessum málaflokki. Tveimur árum síðar tók ég sæti í stjórn UN Women þar sem ég fékk útrás fyrir að vinna að bættum hag kvenna á heimsvísu og taka þátt í frábæru starfi landssamtakanna.“

En snúum okkur að stjórnmálastarfi. Hvernig kom það til að þú fórst að starfa fyrir stjórnmálaflokk og beita þér í pólitík?

„Ég hef alltaf verið hægrimanneskja og kosið Sjálfstæðisflokkinn. Árið 2005 þegar ég er ófrísk að dóttur minni er það Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir vinkona mín sem telur mig á að taka þátt í flokksstarfinu. Í kjölfarið fór ég svo að mæta á landsfundi og vera virk í flokknum.“

Kynnist Hönnu Birnu gegnum starf fyrir Hönnunarmiðstöð

Á árinu 2008 tók Þórey við sem framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar tímabundið á meðan Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri var í fæðingarorlofi. „Það var einstakt tækifæri að fá að taka þátt í að byggja upp Hönnunarmiðstöðina á þessum umbrotatímum. Ég var þarna í miðju stormsins sem fylgdi efnahagshruninu og allt í einu hafði öll þjóðin gríðarlegan áhuga á hönnun og skapandi greinum.“

Á þeim tíma vann Þórey talsvert með borginni, þar á meðal borgarstjóra sem á þeim tíma var Hanna Birna Kristjánsdóttir.

„Við förum í samstarf við borgina um fyrsta Hönnunarmarsinn árið 2009. Þá var það vandamál hversu mörg tóm verslunarrými voru við Laugaveginn og við fylltum þau af íslenskri hönnun og unnum mjög náið með borginni. Hanna hefur kannski bara tekið eftir mér þar, við könnuðumst við hvor aðra úr flokksstarfinu en ég þekkti hana svo sem lítið áður,“ segir hún um það hvernig þær Hanna Birna hófu sitt samstarf.

Þegar þessu tímabili lauk bauð Hanna Birna Þóreyju að vera kosningastjóri fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2010. Að loknum kosningum tók Þórey svo við sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokksins og starfaði þar náið með Hönnu Birnu sem var oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hanna Birna tók stökkið yfir í landsmálin og náði kjöri á þing í kosningunum 2013. Eftir að ný ríkisstjórn var mynduð með Hönnu Birnu sem innanríkisráðherra vorið 2013 bauð hún Þóreyju að vera aðstoðarmaður sinn sem ráðherra. Um hálfu ári síðar réði Hanna Birna Gísla Frey Valdórsson sem annan aðstoðarmann.

„Það sem heillaði mig við Hönnu Birnu eru þessar hugmyndir sem hún hefur um að breyta stjórnmálunum og auka á þverpólitíska sátt og samvinnu. Ég hef alltaf haft mikla trú á henni í stjórnmálum og hef enn, hún býr yfir því hugrekki sem þarf til að taka stjórnmálin á betri stað. Hún er hugsjónamanneskja og ein heiðarlegasta manneskja sem ég hef kynnst.“

Þórey er vön að hafa marga bolta á lofti og erilsamt starf aðstoðarmanns ráðherra hentaði henni því vel.

„Það mæðir mikið á ráðherra sem kemur inn í ráðuneyti eins og þetta sem var þá með 56 undirstofnanir og eitthvað um 40 málaflokka. Það þarf að passa upp á að fylgja eftir öllu sem er í stjórnarsáttmálanum og það þarf að vera á tánum – alltaf. Það er gríðarlegt álag á ráðherranum og sem aðstoðarmaður reynir þú að taka allt á þig sem hægt er til að leysa úr málum.

Við náðum að klára svo margt sem ég er virkilega stolt af þrátt fyrir allan storminn í kringum lekamálið. Við fækkuðum t.d. stofnunum um 22 með sameiningu sýslumanns- og lögreglustjóraembætta, fórum norsku leiðina til að stytta biðtíma hælisleitenda niður í 90 daga og settum á laggirnar sérstaka úrskurðarnefnd til að aftengja stjórnmálin alveg frá ákvörðunarferlinu í hælismálum. En almennt er starf aðstoðarmanns mjög fjölbreytt starf og skemmtilegt.“

Skipta ætti ráðuneytinu upp

Eftir að hafa kynnst innviðum innanríkisráðuneytisins segist Þórey vera á því að það hafi verið mistök að sameina ráðuneyti dómsmála og samgöngumála í eitt. „Innanríkisráðuneytið er allt of stórt ráðuneyti. Ég er sannfærð um að það hefði ekki átt að sameina þetta á sínum tíma. Þarna vinnur frábært fagfólk sem ég lærði mikið af. En eftir að hafa verið þarna innanhúss er ég alveg viss um að það þarf að skipta ráðuneytinu upp. Verkefni innanríkisráðuneytisins eru einfaldlega of viðamikil fyrir eitt ráðuneyti,“ segir Þórey.

Það var þann 21. nóvember 2014, þegar Þórey hafði starfað í ráðuneytinu í eitt og hálft ár og eitt ár var liðið frá því að umtöluðu minnisblaði var lekið úr innanríkisráðuneytinu, að Hanna Birna Kristjánsdóttir baðst lausnar sem ráðherra. Þær Þórey gengu saman út úr ráðuneytinu þennan dag í kjölfar þess að Gísli Freyr Valdórsson, hinn aðstoðarmaður ráðherra, játaði að hafa lekið í fjölmiðla persónuupplýsingum um skjólstæðinga ráðuneytisins.

Þegar blaðamaður ræddi fyrst um viðtal við Þóreyju í lok síðasta árs sagðist hún einfaldlega ekki vera tilbúin að ræða þetta. Hún vildi halda sig fjarri fjölmiðlum eftir hvirfilvind síðasta árs. Það er fyrst núna að hún er reiðubúin að segja frá sinni upplifun af því sem reyndist verða eitt stærsta fréttamál síðasta árs, lekamálinu.

Hafði áhyggjur af afdrifum mögulegs mansalsfórnarlambs

Þann 20. nóvember 2013 birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins undir fyrirsögninni „Grunaður um aðild að mansali“ þar sem vísað var í rökstuðning ráðuneytisins eins og það var kallað í fréttinni. Einnig var vísað í Facebook-síðu mótmæla sem skipulögð höfðu verið gegn sundrun flóttafjölskyldu frá Nígeríu og á henni birt mynd af konu sem í fréttinni var sögð mögulegt mansalsfórnarlamb. Sama dag var birt frétt á Mbl.is um sama mál þar sem einnig vitnað til einhvers konar minnisblaðs sem virtist koma úr innanríkisráðuneytinu.

„Þegar ég las fréttirnar þennan dag brá mér gríðarlega. Hafandi þessa reynslu af ofbeldis- og jafnréttismálum vissi ég hvað það þýðir fyrir mögulegt fórnarlamb mansals að þurfa að þola umfjöllun um mál sitt í fjölmiðlum. Ég vissi strax að þetta gæti verið mjög hættulegt fyrir viðkomandi,“ segir Þórey. Á þessum tíma hafði verið greint frá því að konan sem nefnd var í fréttinni væri mögulega fórnarlamb mansals og væri undir þrýstingi um að viðurkenna annan hælisleitanda sem föður barns síns. „Fyrst og fremst fannst mér þetta virkilega ömurlegt því það á auðvitað enginn sem er skjólstæðingur ráðuneytisins að eiga von á að mál hans sé á forsíðu dagsblaðs. Það er bara óviðunandi,“ segir Þórey. Efst í hennar huga á þessum tímapunkti hafi verið að tryggt yrði af hálfu ráðuneytisins að konan væri örugg.

Spurð að því hvað gerðist næst, hvernig næstu dagar hafi verið í ráðuneytinu segir Þórey að málið hafi frá upphafi verið mjög ruglingslegt.

Málið var áberandi í fjölmiðlum næstu vikur á eftir, en Þórey bendir á að afar litlar upplýsingar hafi komið fram til að skýra málið og á þessum tíma sé enn allt á huldu um hvaðan minnisblaðið títtnefnda hafi komið og hvers vegna upplýsingarnar hafi ratað í fjölmiðla.

„Sjálf vissi ég hreinlega ekki alveg hvað var að gerast, en fljótt fórum við að finna að það var eitthvað mjög bogið við þetta allt.“

DV ætlar að fara „í hana“ ef ekki kemur afsökunarbeiðni

Það er svo þann 17. janúar 2014 að Þórey fer í viðtal í Morgunútvarpi Rásar 2 þar sem hún lætur þau orð falla að hún telji að DV sé að ganga mjög hart fram gegn ráðherranum í málinu. Eftir viðtalið fékk hún símtal frá Reyni Traustasyni, þáverandi ritstjóra DV, sem hún segir hafa hótað að fara „í hana“ ef hún bæði DV ekki afsökunar innan tveggja tíma. Hún ákvað að segja frá símtalinu á Facebook-síðu sinni í stað þess að verða við þessu.

Þórey rifjar þetta upp með blaðamanni.

„Ég gat ekki setið undir þessu. En uppfrá þessu verð ég skotmark hjá DV. Í um fimm mánuði máluðu blaðamenn þar þá mynd af mér að ég hefði verið sú sem sendi minnisblaðið. Það var mjög erfiður tími. Þegar fólk segir ósatt svona oft og svona markvisst þá verður það að sannleika í huga margra. Þetta endaði með því að birt er mynd af mér á forsíðu DV og þar segir að ég sé sá starfsmaður ráðuneytisins sem hafi lekið minnisblaðinu til fjölmiðla,“ segir Þórey en sú frétt birtist á forsíðu DV þann 20. júní 2014 en var dregin til baka sama dag á fréttavef DV.

„Þetta var ömurlegt en líka ákveðinn endir á þessu tímabili sem DV hafði verið að eltast við mig. Og DV birti aldrei leiðréttingu á þessari frétt í prentaða blaðinu, bara á netinu,“ bendir Þórey á.

Tók ákvörðun um að fara í mál eftir samtal við ömmu

Hún segist hafa gefið sér mjög langan tíma í að hugsa um hvað hún ætlaði sér að gera í því að hafa verið ranglega sökuð um refsiverðan glæp á forsíðu dagsblaðs. „Ég held að það langi líklega engan að fara í meiðyrðamál og ég tók mér nokkra mánuði í að hugsa mig um.“

En hvað varð til þess að þú tókst ákvörðun um að fara í meiðyrðamál gegn blaðamönnum DV?

„Ég ákvað það endanlega eftir samtal við Þóreyju ömmu mína,“ segir Þórey og útskýrir nánar. „Fólkið í kringum mig, fjölskylda og vinir, var mjög reitt yfir þessu. Auðvitað særði lygin mig og það að þessir blaðamenn skyldu ekki kynna sér málið betur, en ég fann það svo sterkt að nærumhverfið mitt var eiginlega enn reiðara út af þessu en ég sjálf. Ég tók svo ákvörðunina eftir samtal við ömmu mína um haustið. Amma mín er af þeirri kynslóð sem fer ekki á netið að skoða fjölmiðla. Það sem hún heyrði voru fréttirnar á RÚV í heilan morgun [þann 20. júní 2014, innsk. blm.] þar sem það var fyrsta frétt að ég, barnabarnið hennar, væri glæpamaður. Hún heyrði það í fréttum klukkan 8, klukkan 9, klukkan 10 og í hádeginu. Hún heyrði það kannski í einum fréttatíma síðar um daginn að DV hefði beðið mig afsökunar en hún sá aldrei neina afsökunarbeiðni. Það voru margir sem aldrei sáu þessa afsökunarbeiðni en höfðu hinsvegar fundið fyrir því hvernig blaðið hafði ýjað að minni sekt í marga mánuði.“

Fjarstæðukennt að kalla meiðyrðamálið pólitískt plott

Þórey segist hafa verið forviða þegar svo fram komu raddir um að meiðyrðamálið væri einhvers konar pólitískur leikur sem átti að hafa verið stýrt af einhverjum öðrum en henni.

„Hugmyndir um að þetta mál við DV hafi verið einhvers konar „plott“ eru svo fjarstæðukenndar. Þetta var ekki einu sinni það sem Hanna Birna vildi. En hún skildi að þetta skipti mig máli, hvatti mig til að gera það sem ég taldi rétt og ég var þakklát fyrir þann stuðning.“

Fréttir voru sagðar af því að Þórey vildi blaðamenn DV í fangelsi en hún segir að krafan hafi verið hefðbundin refsikrafa í meiðyrðamáli, það hafi aldrei verið sérstök ósk hennar að neinn færi í fangelsi. Málið gegn blaðamönnum DV sem skrifuðu fréttina endaði með dómssátt og allt sem Þórey vildi láta dæma ómerkt var dæmt ómerkt.

Spurði Gísla Frey margoft um minnisblaðið

En eins og alþjóð fékk síðan að vita var það Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, sem lak títtnefndu minnisblaði. Hann játaði það í nóvember 2014, heilu ári eftir lekann.

Ræddirðu þetta minnisblað við Gísla Frey þegar fréttirnar komu fyrst í nóvember 2013?

„Auðvitað spurði ég hann og Hanna Birna spurði hann ítrekað að mér viðstaddri. Og hann sagði alltaf við okkur að hann hefði ekki sent þetta minnisblað,“ segir Þórey og er skýr og skorinorð þegar þetta berst í tal.

Þannig að þú ræddir málið við hann beint og spurðir hann sjálfan beint um það hvort hann hefði lekið minnisblaðinu?

„Ég spurði hann beint um þetta og ég spurði hann mjög oft. Alltaf neitaði hann, og þverneitaði.

Eftir því sem lengri tími leið, því meiri fjarstæða fannst mér að hann hefði gert þetta. Ég hugsaði með mér að auðvitað væri hann löngu búinn að segja frá ef hann hefði gert þetta. Ég trúði því alls ekki að einhver gæti látið okkur ganga í gegnum slíka þolraun vitandi að hann gæti stoppað það – mér fannst það hreinlega óhugsandi. Og því varði ég hann ítrekað vegna þess að ég trúði honum. Ég er líka þannig gerð að ég stend með vinum mínum og ætla ekki að láta þetta breyta því.“

Sárt að hann skyldi ekki stíga fram fyrr

Þórey segist þó hafa náð sátt við þá staðreynd að hún muni aldrei geta skilið hvað Gísla Frey gekk til með þessu. „Þetta mál er með svo miklum ólíkindum að ég held að ef ég sæi bíómynd um það þá myndi mér finnast hún ótrúleg. Í þessu máli er sannleikurinn ótrúlegri en nokkur lygasaga. Við unnum gríðarlega náið saman á hverjum degi og hann vissi mjög mikið um mitt líf og það sem ég var að ganga í gegnum á þessum tíma – það særði mig mikið að hugsa til þess eftirá að hann skyldi ekki stíga fram fyrr,“ segir Þórey.

Hvað tók mest á í málinu?

„Það sem mér fannst erfiðast var að horfa upp á það sem Hanna Birna þurfti að ganga í gegnum. Erfitt að sjá hvað var gengið nærri henni í þessu máli bæði pólitískt og persónulega. Á sama tíma og hún sýndi ótrúlegan styrk, ég efast um að margir stjórnmálamenn hefðu staðist slíka þolraun og síðan haft kjarkinn til að snúa aftur í stjórnmálin eins og hún er að gera. En auðvitað fannst mér líka mjög erfitt að vera ranglega sökuð um eitthvað sem ég hafði ekki gert. Og fólk sem stóð mér nærri var jafnvel farið að trúa að ég hefði gert þetta vegna þess að það var búið að skrifa þetta svo oft að það hlyti að vera eitthvað til í því.“

Vill ekki hætta að treysta fólki

Þórey var viðstödd þegar Gísli Freyr játaði fyrir Hönnu Birnu að hafa lekið minnisblaðinu. Hún segir engan bera ábyrgð á gjörðum Gísla Freys nema hann sjálfan, líkt og hann hefur sjálfur sagt.

„Ég var við hliðina á Hönnu Birnu allan tímann, veit að hún trúði og treysti Gísla Frey líkt og ég. Þeir sem þekkja Hönnu Birnu vita líka að hún leggur alla áherslu á að gera það sem er rétt. Hún hefði ekki, frekar en ég, varið eitthvað sem hún taldi rangt.

Það er auðvelt fyrir fólk að segja eftir á „auðvitað vissu þær þetta“ en það var ekki þannig. Það var gríðarlegt áfall fyrir okkur báðar þegar Gísli játaði. Ég vissi þann dag að Hanna Birna myndi líklega hvorki leggja meira á sig, fjölskyldu sína eða okkur fólkið sem næst henni stóð og við myndum líklega ekki geta haldið áfram í ráðuneytinu. Þá nýtti ég orkuna síðustu metrana í að reyna að klára með reisn.“

Þórey segist hafa fundið fyrir mikilli reiði í garð Gísla Freys fyrst eftir játninguna. Hún segist þó ekki vilja halda í reiðina og efast ekki um að hann þurfi að gjalda dýru verði það sem hann gerði.

„Þetta eru svo mikil svik, en á sama tíma þá er eins og maður skammist sín aðeins. Átti ég ekki að fatta þetta? En þegar ég hugsa það betur þá vil ég heldur ekki vera manneskjan sem trúir ekki sínum nánustu vinum og samstarfsmönnum. Það er ekki heldur í boði. Ég vil treysta fólki,“ segir Þórey, reisir sig ögn við í sætinu og leggur aftur áherslu á orð sín.

„Gísli Freyr sagði alltaf við okkur að hann hefði ekki gert þetta. Við höfðum engar upplýsingar sem bentu til þess að hann væri að segja ósatt. Ég hef alltaf valið að treysta þeim sem ég vinn með og þeim sem mér þykir vænt um, og hann var einn af þeim. Ég held að ég hefði aldrei getað gert þetta neitt öðruvísi,“ segir hún.

Skilnaðurinn miklu erfiðari

Á sama tíma og lekamálið var í hámæli, lögreglurannsóknin stóð yfir og mikið álag var á Þóreyju vegna umfjöllunar um málið stóð Þórey í skilnaði við sambýlismann sinn til 12 ára, Ríkharð Daðason. Saman eiga þau dótturina Ragnheiði sem er níu ára en Þórey á einnig soninn Vilhjálm Kaldal sem er 16 ára.

„Ég fann það bara um vorið á þessum erfiðasta tíma, þegar ég var í radarnum hjá DV, í yfirheyrslum vegna lögreglurannsóknar og um leið að skilja, þá hugsaði ég að ég ætlaði ekki að bugast. Ég ætlaði að koma sterkari frá þessu, það var það eina sem var í boði. Með góðri hjálp yndislegrar fjölskyldu og vina tókst mér það.

Einn lærdómurinn er sá að ég er miklu sterkari en ég hélt að ég væri. Maður þroskast svo mikið í mótlæti. Þegar maður tekst á við erfiðleika þá lærir maður gríðarlega mikið.

Skilnaðurinn var auðvitað miklu erfiðari fyrir mig persónulega en lekamálið. Skilnaður er eitthvað sem hefur áhrif á alla fjölskylduna, ekki síst börnin og það er erfitt þegar undirstöðurnar bresta. En þótt öll þessi reynsla frá síðasta ári hafi verið sársaukafull þá er ég búin að dýpka mjög margt í mínu lífi sem ég hefði annars ekki gert. Ég hef leitað í ýmislegt sem hefur vonandi gert mig að betri manneskju.“

Þórey Vilhjálmsdóttir er nú að hefja nýjan kafla í lífinu. Hún er nýbúin að festa kaup á íbúð og ætlar að nota sumarið til að koma sér þar fyrir ásamt börnunum sínum. Hún er ákveðin í að nýta gleðina sem drifkraft í lífinu.

„Þetta var greinilega lífsreynsla sem ég átti að fara í gegnum. Stundum kemur bara allt til manns í einu og árið 2014 var mitt erfiða ár. Ég er ótrúlega bjartsýn á framtíðina og sátt við að vera komin á svona góðan stað eftir að hafa gengið í gegnum þetta stormasama ár.“

Þórey Vilhjálmsdóttir á hjólinu eftir að hafa hjólað 32 km …
Þórey Vilhjálmsdóttir á hjólinu eftir að hafa hjólað 32 km á hjólreiðamóti, Shimano Reykjanesmótinu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir utan við innanríkisráðuneytið.
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir utan við innanríkisráðuneytið. mbl.is/Golli
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert