Með hreindýr í garðinum

Íbúar á Djúpavogi hafa orðið varir við mikinn fjölda hreindýra á svæðinu síðustu daga. Helga Björk Arnardóttir býr á Djúpavogi og er orðin alvön að sjá hreindýr í bænum. „Það voru hreindýr við stofugluggann hjá mér. Ég hef búið á Djúpavogi síðan 2004 og þetta er orðið venjulegt. Það er stór hreindýrahjörð sem er bara hérna fram á sumar. Hún fer yfir daginn upp í móa og á nóttunni er hún mikið á fótboltavellinum.“ Dýrin sækja mikið í garða og íbúar bæjarins eru alveg hættir að kippa sér upp við að sjá hreindýr í garðinum heima.

Verður fólk fyrir einhverjum truflunum af þessum völdum? „Nei, þetta vekur hins vegar mikla athygli ferðamanna. Þetta er orðin svo gæf hjörð, ég sé fótboltavöllinn frá stofuglugganum hjá mér, og oft eru þar margir bílar og fólk farið út úr bílunum og kemst þó nokkuð nálægt hjörðinni að taka myndir.“ Helga sá hreindýr í garðinum sínum í gær sem hreyfðist ekki fyrr en hún keyrði bílinn inn í innkeyrsluna. „Þá rölti það bara rólega út á gangstétt og yfir í næsta garð.“

Helga sagði að enginn væri smeykur og bæjarbúar séu vanir þessu. Hins vegar vekur þetta mikla athygli ferðamanna „Ferðamönnum finnst þetta bara mjög spennandi og ég held að enginn sé smeykur við þetta. Enda eru þetta mjög gæf dýr og börnin hérna þekkja hreindýrakúkinn hér um allan bæ,“ sagði Helga.

Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur á Náttúrustofu Austurlands, sagði í samtali við mbl.is að hreindýrahópar í byggð væri engin breyting frá fyrri árum.

„Þau fara ekki upp í mikla snjóinn í fjöllunum þannig að þau eru inn í dölunum. Þú sérð ekkert kýrnar og kálfana, þau eru inn í dölunum. Það sem þú sérð nálægt vegi eru tarfahópar og það er engin breyting frá fyrri árum. Eftir að törfunum fjölgaði þá hanga þeir í byggð fram á sumar. Þannig að það er ekkert mikið meira af hreindýrum í byggð núna en verið hefur að mínu mati,“ sagði Skarphéðinn.

„Ég sá mynd á Facebook af fótboltavellinum á Bakkafirði og þar voru hreindýr.“ Skarphéðinn sagði hreindýrin ekki sækja á fótboltavellina vegna knattspyrnuáhuga. „Því var reyndar haldið fram á Bakkafirði og það var lóa sem dæmdi leikinn hjá voru um 20 törfum. Það sem menn hafa mest talað um undanfarið eru 70-80 tarfar á fótboltavellinum á Djúpavogi. Þeir eru þarna fram og til baka og pirra suma íbúana en þetta hefur verið svona undanfarin ár.“ Hreindýr sækja í knattspyrnuvelli vegna þess að þar er grasið grænt og gott að bíta það.

Dýrin gera ekki flugu mein sagði Skarphéðinn. „Nei, það er ekki til í dæminu. Ekki nema í einhverjum öfgafullum aðstæðum og í einu skiptin sem þeir eru villtir og ógnandi er á fengitíma. Yfirleitt þurfa menn ekki að hafa neinar áhyggjur af hreindýrum.“

Helga myndar hreindýr í garðinum hjá sér.
Helga myndar hreindýr í garðinum hjá sér. Ljósmynd/Helga Björk
Hreindýrið skokkar yfir í næsta garð.
Hreindýrið skokkar yfir í næsta garð. Mynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert