Sagan á bak við vöfflurnar

Elísa­bet Ólafs­dótt­ir, skrif­stofu­stjóri hjá rík­is­sátta­semj­ara, bak­ar vöffl­ur
Elísa­bet Ólafs­dótt­ir, skrif­stofu­stjóri hjá rík­is­sátta­semj­ara, bak­ar vöffl­ur Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sá siður ríkissáttasemjara að bjóða upp á nýbakaðar vöfflur þegar kjarasamningur er í höfn teygir sig um tuttugu ár aftur í tímann. Upphaflega var ákveðið að bjóða upp á vöfflur þegar langar og strangar kjaraviðræður voru að baki og ákveðið var að gera eitthvað til hátíðarbrigða til að kæta viðstadda og létta andrúmsloftið.

„Við byrjuðum á þessu af því að fólk var búið að vera mjög lengi hjá okkur í húsi og allir orðnir þreyttir eins og gengur. Þá ákváðum við að gera okkur eitthvað til hátíðarbrigða og baka vöfflur. Það var aldrei hugsað þannig að þetta ætti að vera til eilífðar en svo mæltist þetta vel fyrir og næsti hópur vildi líka vöfflur og þarnæsti og svo sleppum við aldrei út úr þessu,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá ríkissáttasemjara.

Ná að slaka aðeins á yfir vöfflunum

Hefðin hefur mælst vel til og segir Elísabet að fólk sé mjög þakklátt fyrir vöfflurnar og finnist þetta skemmtileg hefð. Öllu er tjaldað til og er reynt að verða við séróskum ef einhverjar eru, til að mynda um sérstakt súkkulaði eða sultu.

„Þetta er miklu mikilvægara en maður gerir sér grein fyrir. Yfirleitt er fólk búið að vera lengi að, búið að takast á og orðið þreytt og svefnlaust. Þetta sameinar hópinn í lokin og sest fólkið niður í lokin og spjallar, losnar á spennunni. Fólk verður afslappaðra og nær að slaka aðeins á, rýkur ekki beint úr eftir undirskriftina eins og var. Við erum bara mjög ánægð með þessa hefð, munum halda þessu áfram til eilífðar,“ segir Elísabet að lokum.

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í kjaradeilum Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið en búið er að slíta báðum kjaraviðræðunum.  

 

Björn Snæ­björns­son formaður Starfs­greina­sam­bands­ins fær sér væna vöfflu með rjóma. …
Björn Snæ­björns­son formaður Starfs­greina­sam­bands­ins fær sér væna vöfflu með rjóma. Ólafía B. Rafnsdóttir virðir úrvalið fyrir sér. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert