Starfsmenn fjársýslunnar í verkfall

mbl.is/Ernir

Starfsmenn Fjársýslu ríkisins fara í ótímabundið verfall frá miðnætti annað kvöld ef ekki semst fyrir þann tíma. Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins samþykkti verkfallið þann 18. maí síðastliðinn og var það samþykkt í rafrænni atkvæðagreiðslu.

Áhrifin sem verkfallið hefur eru meðal annars að greiðsluseðlar vegna ýmissa gjalda sem sýslumenn annast innheimtu á, eru ekki sendur út. Eru það meðal annars tekjuskattur, eignaskattur, álagt tryggingagjald og sveitarsjóðsgjöld, þungaskattur, skipulagsgjald og skattsektir.

Í tilkynningu á heimasíðu sýslumannaembættanna segir að gjaldendur geti átt von á að verða fyrir óþægindum vegna verkfallsins þar sem greiðsluseðlar verða ekki sendir út og nýjar kröfur birtast ekki í netbanka. Það er þó tekið fram að óhagræðið hefur ekki áhrif á greiðsluskyldu gjaldenda eða lögboðna gjalddaga og eindaga.

Geta gjaldendur ávallt fengið upplýsingar um greiðslustöðu og greitt kröfur hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, tollstjóra og sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert