Verklagsreglum var fylgt

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Í vikunni var hermt af því í fjölmiðlum að karlmaður hefði ógnað barnsmóður sinni meðan hún lá á fæðingardeild Landspítalans skömmu eftir barnsburð og skeytt skapi sínu á dauðum hlutum. Skýrar verklagsreglur gilda um atvik af þessu tagi á spítalanum og svo virðist sem starfsmaðurinn sem varð vitni að atburðinum hafi farið í einu og öllu eftir þeim. Ekki var um líkamlegt ofbeldi að ræða, heldur ógnaði maðurinn konunni, og samkvæmt verklagsreglum spítalans ber starfsmönnum ekki að gera lögreglu viðvart í slíkum málum að þolanda forspurðum. Á hinn bóginn bar starfsmanninum að kalla til félagsráðgjafa sem síðan leggur mat á það hvort gera beri barnaverndarnefnd viðvart. Það var gert í þessu tilviki.

Auknar skyldur sé barni ógnað eða það beitt ofbeldi

Að sjálfsögðu bannar ekkert starfsmanni spítalans að hafa samband við lögreglu, telji hann ástæðu til þess sem almennur borgari, en samkvæmt téðum verklagsreglum þarf hann ekki að gera það. Í fyrrnefndu tilviki virðist það hafa verið metið þannig að eðlilegra væri að þolandinn hefði sjálfur samband við lögreglu og legði fram kæru á hendur manninum, sýndist honum svo. Eða þá aðstandendur hans. Hefði komið til ofbeldis hefði öryggisvörður á spítalanum eða lögregla verið kölluð til, samkvæmt verklagsreglum.

Þær upplýsingar fengust á Landspítalanum að ekki hefði komið til tals að endurskoða þessar reglur en þar á bæ vildu menn ekki tjá sig um þetta tiltekna mál.

Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum hvíla auknar skyldur á starfsmönnum verði þeir vitni að því að barni sé ógnað eða það beitt ofbeldi, nóg sé raunar að grunur sé um slíkt athæfi til að félagsráðgjafi sé kallaður til og í framhaldi er það metið hvort leita þurfi til barnaverndarnefndar. Þessi regla gildir ekki bara á fæðingardeildinni, heldur í öllum húsakynnum spítalans.

Sárasjaldgæft mun vera að sjúklingar eða aðstandendur þeirra séu beittir ofbeldi á spítalanum en spítalinn staðfestir þó að það hafi gerst.

Fólk kemur í allskyns ástandi á spítalann

Hitt er mun algengara að starfsmönnum Landspítalans sé ógnað eða þeir beittir ofbeldi. Það gerist einkum og sér í lagi á tveimur stöðum, á geðdeildinni og bráðamóttökunni. Fólk kemur í allskyns ástandi á spítalann, ekki síst þessa tvo staði, og fyrir vikið ber starfsfólki að ganga út frá því að allt geti gerst. Það sé eðlilegur hluti af því að reka sjúkrahús.

Á geðdeildinni er starfrækt viðbragðsteymi sem sett er í gang þegar brot af þessu tagi eiga sér stað en þess utan er öryggisgæsla á báðum stöðum, lögregla gengur til að mynda vaktir á bráðamóttökunni. Spítalinn staðfestir að komið hafi fyrir að lögregla hafi þurft að fjarlægja ofbeldismenn úr húsinu.

Starfsfólk spítalans fær þjálfun í að bregðast við allskyns áreiti, ekki síst sé því ógnað eða reynt að beita það ofbeldi. Þetta á einkum við á geðsviði og bráðamóttöku. Það er liður í því að tryggja í senn öryggi starfsfólksins og ofbeldismannanna, sem oftar en ekki eru illa fyrirkallaðir andlega, svo sem vegna veikinda, ölvunar eða fíkniefnaneyslu. Á geðdeildinni er vinnureglan sú að reyna að forðast þvingunaraðgerðir í lengstu lög. Mikið þarf með öðrum orðum að ganga á til að sjúklingur sé beittur harðræði.

Ekki fengust svör við því hvort starfsfólk hafi látið af störfum á spítalanum eftir að hafa verið ógnað eða það beitt ofbeldi við störf sín.

Nán­ar er fjallað um málið í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert