90% undanþágubeiðna samþykkt

Hjúkrunarfræðingar hafi verið í verkfalli frá því á miðnætti 27. …
Hjúkrunarfræðingar hafi verið í verkfalli frá því á miðnætti 27. maí. mbl.is/Golli.

Alls hafa 218 beiðnir borist undanþágunefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá því að verkfall félagsmanna þess hófst um miðja síðustu viku. Af þeim hafa 90% verið samþykkt, að sögn Ólafs G. Skúlasonar, formanns félagsins. Formgalli hefur í einhverjum tilfellum orðið til þess að beiðnum hafi verið hafnað.

Af beiðnunum 218 hafa 154 borist frá Landspítalanum. Það eru rúmlega 70%. Ólafur segir að mikið álag hafi verið á ákveðnum deildum Landspítalans eins og gjörgæsludeildunum og deildum sem eiga erfitt með að útskrifa. Bregðast hafi þurft við því.

Undanþágunefndin taki afstöðu til rökstuðnings fyrir beiðnum í hvert skipti fyrir sig. Í einhverjum tilfellum þegar beiðnum hefur verið hafnað hefur það verið vegna formgalla.

„Það er kannski beðið um undanþágu fyrirfram. Það er sótt um á föstudegi fyrir undanþágu á mánudegi þegar ekki er vitað hver staðan er. Slíkt er náttúrulega ekki samþykkt. Það verður að vera vitað að það þurfi að bæta við hjúkrunarfræðingum. Ef það sést að kvöldi til að það sé mjög mikið að gera og mönnunin morguninn eftir muni aldrei ná að anna því þá er hægt að sækja um það. Þú getur ekki sótt um marga daga fram í tímann,“ segir Ólafur.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og segir Ólafur að ekkert hafi heyrst af nýjum tillögum frá samninganefnd ríkisins sem beðið sé eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert