Lög á verkfallið ekki útilokuð

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hlýtur að vera mögulegt. Fordæmin eru fyrir því að það hafi verið sett lög á kjaradeilur og í þeirri stöðu sem uppi er þá vil ég ekki útiloka neinn möguleika í dag. Það kemur einfaldlega ekki til greina. Til þess er ástandið með þeim hætti að það er alltof alvarlegt.“

Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, þar sem hún spurði ráðherrann hvort mögulegt væri að sett yrðu lög á verkfall hjúkrunarfræðinga. Sagðist hún vonast eftir neikvæðu svari. Kristján gaf ekkert upp um það hvort slíkt stæði til en sagði að möguleikinn væri vissulega fyrir hendi.

Katrín spurði að sama skapi hvort til greina kæmi að sett yrði á laggirnar sáttanefnd með aðkomu deiluaðila og ríkissáttasemja til þess að leysa málið. Eins og stjórnarandstaðan hafi lagt til þegar læknaverkfallið hafi verið í gangi. Kristján sagðist reiðubúinn að skoða allar leiðir til þess að leysa málið ef þess gerðist þörf og það gæti orðið til þess að leysa deiluna. Núverandi staða gengi í það minnsta ekki til lengdar og finna yrði leiðir til lausnar deilunnar. Hann væri þó ekki reiðubúinn að nefna neinar tímasetningar í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert