Magnús ánægður með eftirmanninn

Bryndís Hlöðversdóttir tók við af Magnúsi Péturssyni í morgun.
Bryndís Hlöðversdóttir tók við af Magnúsi Péturssyni í morgun. mbl.is/Eggert

„Það er mjög spennandi að taka við þessu áhugaverða embætti,“ sagði Bryndís Hlöðversdóttir, nýr ríkissáttasemjari, þegar Magnús Pétursson forveri hennar afhenti henni formlega lyklavöld að karphúsinu í morgun.

Bryndís segir hið nýja starf leggjast vel í sig, og hún hlakki til að takast á við verkefnin. „Það getur verið skemmtilegt að koma inn í svolitla hringiðu og stundum þarf maður bara að demba sér í djúpu laugina. Ég hef fullt að lesa og hlakka bara til.“

Magnús kvaðst ánægður með eftirmann sinn og sagðist ganga sáttur frá borði. „Það er bara búið að vera gaman hér,“ sagði hann en bætti við að vissulega hafi verið mikið að gera síðasta hálfa árið. „Þetta gerist þegar aðalkjarasamningar eru gerðir; þá verður meira að gera en á öðrum tíma, en nú er hluti af þessu búinn farsællega. En þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið,“ sagði hann og bætti við að enn ætti eftir að semja við ýmsa aðila á almenna markaðnum og ósamið væri við allan opinbera markaðinn, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Magnús útskrifaður úr vöffluskólanum

Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, og Magnús Jónsson, aðstoðarsáttasemjari, færðu Magnúsi og Bryndísi blóm við lyklaafhendinguna, en auk þess var Magnús kvaddur með gjöfum. „Ég sagði við Magnús um daginn að ég þyrfti að fara í upplestrarfrí því það er svo mikið af góðum bókum sem mig langar að lesa. Þá sagði hann: „Ég er að fara í upplestrarfrí!“ svo við færum honum tvær bækur,“ sagði Elísabet. Auk þess fannst samstarfsfólki hans vel við hæfi að gefa honum vöfflujárn í kveðjugjöf þar sem siður er hjá rík­is­sátta­semj­ara að bjóða upp á nýbakaðar vöffl­ur þegar kjara­samn­ing­ur er í höfn. „Nú ert þú útskrifaður úr vöffluskólanum,“ sagði Elísabet.

Magnús sagði starfi sínu lausu í lok febrúarmánaðar, hann hafði gegnt embætti ríkissáttasemjara frá 2008 þegar hann var skipaður af þáverandi félagsmálaráðherra. Hann lætur af störfum sökum aldurs. Aðspurður segist Magnús engin sérstök ráð hafa handa eftirmanni sínum, en kveðst viss um að hún sé ljómandi vel undirbúin fyrir starfið. En hvað tekur við hjá þér? „Það er bara óvissan sem tekur við,“ segir hann og hlær. „En eins og Elísabet sagði er ég að fara í upplestarfrí.“

Var hvött til að sækja um starfið

Bryn­dís segist hafa fengið hvatningu úr nokkrum áttum til að sækja um starfið eftir að Magnús sagði því lausu, sem gerði það að verkum að hún fór að velta því fyrir sér og ákvað að láta á það reyna. Hún sagði starfi sínu sem starfsmannastjóri á Landspítalanum lausu í kjölfarið, en þangað hafði hún verið ráðin til fimm ára. „Ég var bara búin með tæp tvö ár af þeim tíma svo ég var ekkert búin að hugsa mér sérstaklega til hreyfings en mér fannst þetta freistandi og áhugavert embætti. Það sameinar margt sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina,“ segir hún og heldur áfram: 

„Ég hef komið að málefnum aðila vinnumarkaðarins með ýmsum hætti í gegnum tíðina svo mér fannst ég hafa góðan grunn til að sækjast eftir embættinu.“ Bryn­dís hef­ur komið víða við á ferli sín­um, en hún var lög­fræðing­ur hjá Alþýðusam­bandi Íslands árin 1992 til 1995. Þá sett­ist hún á þing fyr­ir Alþýðubandalagið og síðar Sam­fylk­ing­una til árs­ins 2005 og tók þá við sem deild­ar­for­seti laga­deild­ar Há­skól­ans á Bif­röst. Árið 2006 varð hún einnig aðstoðarrektor og á ár­un­um 2011-2013 var hún rektor skól­ans. Frá ár­inu 2013 hef­ur hún svo starfað á Land­spít­al­an­um. Á þess­um tíma hef­ur Bryn­dís setið í stjórn­um fjölda fyr­ir­tækja og var frá 2010-2013 varamaður í Fé­lags­dómi.

Kaffi fyrsta verkefni á dagskrá

En hver eru fyrstu mál á dagskrá hjá nýjum ríkissáttasemjara? „Mér heyrist að það sé að fá mér kaffi,“ segir Bryndís og hlær. „En ég tek við á þeim stað sem Magnús skilur við. Hér er allt í mjög föstum skorðum og það er mjög aðgengilegt fyrir mig að koma að þeim málum. Hér hefur verið haldið mjög vel utan um að það sé allt í röð og reglu og maður geti gengið að ákveðnum gögnum um mál, sem er gríðarlega mikilvægt.“

Bryn­dís sat sem áheyrn­ar­full­trúi á samn­inga­fund­um í liðinni viku á þeim tíma þegar samn­ing­ar voru að nást við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins. Engir samningar náðust þó á milli BHM og Fé­lags hjúkr­un­ar­fræðinga og rík­is­ins og segist Bryndís því munu heyra í samninganefndunum í dag og taka púlsinn á verkefnum. „Ef tilefni gefst mun ég boða til fundar. Magnús mat það svo um helgina að svo væri ekki en vonandi kemur það.“

Þá er stafli af möppum á borði hennar sem bíða lestrar. „Það er nóg að lesa og ég hlakka bara til,“ segir hún. Aðeins fimm dagar eru síðan Bryndís fékk að vita af ákvörðun ráðherra að skipa hana rík­is­sátta­semj­ara. Hún segist því enn eftir að hnýta nokkra lausa enda á sínum fyrri vinnustað en hún hafi þó náð að undirbúa sig nokkuð vel andlega og sé tilbúin í hið nýja starf. 

Magnús Pétursson fékk vöfflujárn í kveðjugjöf.
Magnús Pétursson fékk vöfflujárn í kveðjugjöf. mbl.is/Eggert
Elísabet S. Ólafsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir innsigla komandi samstarf sitt.
Elísabet S. Ólafsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir innsigla komandi samstarf sitt. mbl.is/Eggert
Bryndís Hlöðversdóttir og Magnús Pétursson í morgun.
Bryndís Hlöðversdóttir og Magnús Pétursson í morgun. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert