Ríkið komi niður af snaganum

Félagar í BHM mótmæla við húsnæði Ríkissáttasemjara.
Félagar í BHM mótmæla við húsnæði Ríkissáttasemjara. mbl.is/Golli

„Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif nú þegar og mun hafa enn alvarlegri áhrif því lengur sem þetta stendur,“ segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, um verkfall bandalagsins sem nú hefur staðið yfir í átta vikur.

Á föstudag sleit ríkið samningaviðræðum við BHM og ekki hefur verið boðað til nýs fundar síðan. Páll segir ljóst að ekki sé um mikið að semja og á meðan ríkið endurmeti ekki tilboð sín sé ekki tilefni til að funda.

„Ríkið setti fram ákveðna tillögu sem er nánast úrslitakostur af þeirra hálfu svo það er ekki um mikið að semja annað en þeir vilja. Við höfum sett okkar kröfur fram sem samningskröfur sem við erum tilbúin að semja okkur frá en þeir eru ekki tilbúnir að hreyfa sig þá gerist ekkert,“ segir hann.

Ekki hægt að semja um annað en það sem ríkið lagði fram

Á föstudag lagði ríkið fram til­boð í deil­unni sem var álíka þeim samn­ing­um sem sam­ist hafði um á al­menna markaðinum. BHM hafnaði því til­boði og seg­ir Páll að í því hafi ekki verið horft til helstu kröfu fé­lags­ins um að mennt­un væri met­in til launa.

BHM lagði í kjöl­farið fram annað til­boð og seg­ir Páll að þar hafi verið ítr­ustu kröf­ur fé­lags­ins sem þeir væru til­bún­ir að semja út frá. Svarið frá rík­inu hafi verið á þann veg að ekki væri hægt að semja um annað en ríkið væri að leggja fram. Samn­inga­nefnd rík­is­ins sleit því viðræðunum.

Næstu viðbrögð að vara fólk við að fara í nám

Páll segir stöðuna nú vera þá að ekkert annað sé í boði en að ganga að kröfum ríkisins. „Eins og það kemur út fyrir okkur miðað við þær prósentuhækkanir sem þeir hafa nefnt er annað hvort að lægstu laun hjá okkur verði tæplega 6% yfir launum ófaglærðra, eða að þeir sem vilja hafa meiri menntun eða ábyrgð greiði þetta eitthvað niður og það verði flutningur á milli vegna þess að þeir eru ekki tilbúnir að auka kostnaðinn,“ útskýrir hann og heldur áfram:

„Annað hvort þurfa okkar félagsmenn því að greiða það að ná lægstu launum upp eða þau verða þessi, og þetta er ekkert sem hægt er að taka við,“ segir hann. „Næstu viðbrögð okkar yrðu því viðvörun til fólks að fara ekki í nám svo það sé ekki að hlunnfæra sig.“

Lægstu laun verði upp undir 400 þúsund

Launakröf­urnar sem fé­lagið fer fram á eru ekki ósvipaðar al­menna markaðinum þegar tekið sé mið af mennt­un. Þannig sé horft til þess að lægstu laun verði kom­in upp und­ir 400 þúsund krón­ur á mánuði. Slík hækk­un eigi þó við um lægst launuðu stétt­irn­ar. Að öðru leyti sé horft til þess að mennt­un sé met­in til launa.

Seg­ir Páll að samn­ing­arn­ir á al­menna markaðinum hafi ekk­ert for­dæm­is­gildi fyr­ir samn­inga BHM, enda séu mis­mun­andi for­send­ur í þess­um tveim­ur mál­um. Hjá BHM sé verið að leit­ast eft­ir viður­kenn­ingu á því að meta mennt­un til launa, eins og tíðkist í lönd­un­um í kring­um okk­ur.

„Vantar ekki að menn séu að beita afli“

Fjársýsla ríkisins fer í ótímabundið verkfall á miðnætti sem mun hafa í för með sér að allt greiðslukerfi ríkisins fer úr skorðum að sögn Páls. Hann segir stjórn félagsins hafa vonað að ekki þyrfti að koma til þessara aðgerða, þar sem verkfallsaðgerðir félagsins séu þegar þungar. „Mér finnst það stórmerkilegt að viðsemjanda okkar láti sér það í léttu rúmi liggja þó það sé vandræðaástand á fjölmörgum stofnunum.“

Aðspurður um það hvort enn frekari aðgerðir séu framundan segir Páll það ekki í kortunum, en ýmislegt sé þó í skoðun. „Aðgerðirnar sem eru í gangi núna eru mjög harðar, bæði á spítölum, hjá Matvælastofnun og sýslumannsembættinu og svo er fjársýslan að bætast við á miðnætti svo það vantar ekki að menn séu að beita afli,“ segir hann.

„Við vonumst til að ríkið komi niður af þessum snaga sem þeir eru búnir að hengja sig upp á og séu tilbúnir að ræða í alvöru við okkur um þessa hluti; hvernig það sé hægt að meta menntun til launa og að launamyndunarkerfinu hjá ríkinu verði komið í þær horfur að það virki,“ segir hann.

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM.
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM. mbl.is
Frá fundi BHM og samninganefnd ríkisins í húsi ríkissáttasemjara.
Frá fundi BHM og samninganefnd ríkisins í húsi ríkissáttasemjara. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert