Sagði málið fullrætt í nefndinni

Þingmenn stjórnarandstöðunnar fordæmdu við upphaf þingfundar á Alþingi í morgun framgöngu meirihlutans á fundi í umhverfis- og samgöngunefndar í morgun þar sem frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli var afgreitt út úr nefndinni.

Stjórnarandstæðingar segja að frumvarpið, sem snúist um að taka skipulagsvaldið yfir millilandsflugvöllum af sveitarfélögum og færa það í hendur innanríkisráðherra, hafi verið tekið úr nefndinni í ágreiningi í kjölfar þess að miklar breytingar hafi verið gerðar á því. Þær breytingar hafi sama og enga umræðu fengið í nefndinni og meirihlutinn hafi hafnað því að kalla fulltrúa umræddra sveitarfélaga á fund nefndarinnar til þess að ræða breytingarnar.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hafnaði því að ekki hafi farið nægjanlega mikil umræða fram í nefndinni um málið. Það hafi þvert á móti verið fullrætt og fjölmargir gestir komið fyrir nefndina. Þá hafi jákvæðar umsagnir borist frá bæði Akueyrarbæ og Fljótsdalshéraði um þær hugmyndir sem breytingarnar á frumvarpinu gengu út á. Það er að frumvarpið næði einnig til flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum.

Höskuldur sagði ennfremur að hugmyndin með frumvarpinu væri að allir landsmenn fengju fulltrúa við borðið þegar kæmi að framtíð Reykjavíkurflugvallar. Sú leið sem kynnt væri í frumvarpinu væri sú eina færa til þess að lenda málinu. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar vísuðu þessu á bug og sögðu að textinn sem lagður hafi verið fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar hafi verið nánast rauður vegna þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á honum.

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, kallaði eftir því að þingflokksformenn yrðu kallaðir saman til þess að ræða þessi vinnubrögð meirihluta nefndarinnar. 

Frétt mbl.is: Sveitarfélögin svipt skipulagsvaldinu

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Norden.org/Heidi Orava
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert