Skíðað í skýjunum

Hallgrímur Kristinsson hefur stundað fjallamensku í hartnær 30 ár.
Hallgrímur Kristinsson hefur stundað fjallamensku í hartnær 30 ár.

Þann 5. júní næstkomandi mun Hallgrímur Kristinsson leggja af stað í mánaðarferðalag til að freista þess að komast á tind fjallsins Muztagh Aga í Kína. Fjallið er 7.546 metra hátt og því eitt af hæstu fjöllum sem Íslendingur hefur glímt við. Það sérstaka við för Hallgríms er að hann ætlar að komast upp á tind fjallsins á fjallaskíðum og skíða niður en enginn Íslendingur hefur gert tilraun til að skíða í svo mikilli hæð. 

Hallgrímur hefur farið á nokkra ára fresti og klifið fjöll úti í heimi en hann hefur horft á þetta fjall í næstum 12 ár og ákvað að láta drauminn nú loks rætast. Aðspurður um hver sé besti undirbúningurinn undir ferðalag sem þetta segir Hallgrímur að andlegi þátturinn skipti ekki síður máli en sá líkamlegi. Reynsla Hallgríms á fjallskíðum er honum því mikils virði en undanfarið hefur hann einnig verður duglegur við það að klífa fjöll hér á landi. 

Hallgrímur segir að nú sé allt að verða klárt fyrir brottför en 66° Norður og Útilíf hafa stutt hann til fararinnar. Hallgrímur telur að ef ferðalagið gangi vel og hann komist á toppinn þá hljóti að vera búið að slá Íslandsmet í að skíða í svo mikilli hæð.

Muztagh Aga er í vesturhluta Kína í svokölluðu Xinjiang-héraði en Hallgrímur mun nálgast fjallið í gegnum Kirgisistan. Það sem er sérstakt við fjallið er að ein hlið þess er tiltölulega aflíðandi sem gerir það verkum að unnt er að ráðast til atlögu við það á skíðum en þetta þykir afar sjaldgæft miðað við hæð fjallsins.

Hallgrímur er 42 ára og hefur stundað fjallamensku í hartnær 30 ár. Hann hefur verið í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík í nær 20 ár og starfar einnig sem leiðbeinandi fyrir Landsbjörg í fjallamennsku.

Á Facebook-síðu Hallgríms er hægt að fylgjast nánar með ferðalagi hans - Skíðað í skýjunum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert