„Þrefað áfram um þetta dauða mál“

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Sótt var um á röngum forsendum án raunverulegs pólitísks vilja til aðildar og innan ESB var ekki heldur neinn pólitískur áhugi á málinu. Nú er þrefað áfram um þetta dauða mál vegna formsatriða og stofnað til deilna innan flokka og milli flokka.“

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag í kjölfar frétta fyrir helgi um að Evrópusambandið hafi ákveðið að taka Ísland af lista sínum yfir umsóknarríki að sambandinu og umræðna um það með hvaða hætti hefði átt að standa að málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda. Björn segir að þær umræður snúist meira um formið á samskiptunum við ESB en efni málsins og spyr hvort ekki sé tímabært að ræða efnislega um niðurstöðu umsóknarferlisins sem hann segir að hafi verið dautt frá byrjun.

„Er ekki tímabært að viðurkenna hina efnislegu niðurstöðu? Átta sig á að íslensk fiskveiðilögsaga hverfur úr sögunni og verður ESB-lögsaga. Vilja einhverjir íslenskir stjórnmálamenn það? Sé svo eiga þeir að segja það og leggja fyrir kjósendur að halda áfram ESB-viðræðunum á nýjum forsendum. Ísland er ekki lengur umsóknarríki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert